Lið úr tæknifræðináminu vinna til verðlauna

Lið úr tæknifræðinámi Háskóla Íslands og Keilis hrepptu bæði 2. og 3. sæti í Hönnunarkeppni véla- og iðnaðarverkfræðinema HÍ sem fram fór 4. febrúar síðastliðinn á UTmessunni í Hörpu.

Hönnunarkeppnin hefur fyrir löngu öðlast fastan sess, bæði í dagskrá Háskóla Íslands ár hvert en ekki síður á RÚV sem hefur um árabil tekið keppnina upp og sýnt í sjónvarpinu. Engin undantekning verður á því í ár. Markmið keppninnar er sem fyrr að hanna faratæki sem farið getur yfir fyrir braut og leyst ýmsar þrautir á leið sinni að endastöð. Stig eru gefin fyrir hverja leysta þraut.

Þrjú lið úr tæknifræðinámi Háskóla Íslands og Keilis tóku þátt í keppninni í ár og komu þau frá öllum þremur árgöngum námsins. Svo fór að þau enduðu í þremur af fjórum efstu sætum keppninnar. Glæsilegur árangur og góður vitnisburður um tækniþekkingu og verklega nálgun nemenda.


Tengt efni