Hver er munurinn á tæknifræði og verkfræði?

Karl Sölvi Guðmundsson
Karl Sölvi Guðmundsson

Karl Sölvi Guðmundsson, Dósent við Rafmagns- og tölvuverkfræðideild Háskóla Íslands, útskýrir muninn á tæknifræði og verkfræði í nýjasta hefti Tæknifræðingsins, tímariti tæknifræðinemenda Háskóla Íslands og Keilis.

Þegar kemur að námi á grunn háskólastigi þarf Ísland að vera sjálfbært um nám sem þjónar hagsmunum atvinnulífs og samfélagsins hverju sinni. Við þurfum metnaðarfullt fræðilegt verkfræðinám á öllum þremur háskólastigum. Fræðilega verkfræðin skipar okkur sess með afburða skólum sem þjóna tækniframförum framtíðarinnar. Verkfræðin kemur samt sem áður ekki í stað tæknifræðinnar og tæknifræðin ekki í stað verkfræðinnar. Þarfir og markmið samfélagsins, atvinnulífsins og nemenda skilja greinarnar af þó margt sé sameiginlegt með þeim.

Markmið verkfræðináms eins og það er kennt í bestu verkfræðiskólum heims er að byggja upp fyrir framtíðina fræðimenn og rannsakendur í faggreininni. Í verkfræðinni eru þess vegna stundaðar rannsóknir sem að miklu leyti byggja á grunnvísindum. Rannsóknarverkfræðin hagnýtir því afrakstur grunnvísinda við þróun á nýrri tækni. Grunnám í verkfræði er 180 ECTS einingar og leggur frumáherslu á fræðilega þekkingu, þ.e. undirbúning fyrir meistaranám. Meistaranámið í verkfræði er frekari sérhæfing og jafnframt hagnýtt starfsréttindanám sem veitir starfsheitið Verkfræðingur að fengnu samþykki Verkfræðingafélags Íslands (VFÍ). Verkfræðinám er því fimm ára 300 ECTS eininga nám með mikla áherslu á fræðilega undirstöðu.

Markmið tæknifræðináms eins og það er kennt í bestu háskólum heims er að byggja upp þekkingu sem nýtist atvinnulífi og iðnaði. Þess vegna hagnýtir tæknifræðin tækniafrakstur rannsóknarverkfræðinnar við þróun nýrra tæknilausna fyrir fyrir iðnað og atvinnulíf. Tæknifræðinám á Íslandi er þriggja og hálfs árs nám að lágmarki 210 ECTS einingar og jafnframt starfsréttindanám sem veitir starfsheitið Tæknifræðingur að fengnu samþykki Tæknifræðingafélags Íslands (TFÍ). Þar er mikil áhersla lögð á að byggja upp hagnýta verkþekkingu og færni við að beita henni á heilstæðan hátt á verkefni sem endurspegla þarfir atvinnulífsins.

Karl Sölvi Guðmundsson,
Ph.D.Dósent við Rafmagns- og tölvuverkfræðideild Háskóla Íslands 


Tengt efni