Ég er á alveg hárréttum stað

Viðtal í Fréttablaðinu við Þóri Sævar Kristinsson sem dúxaði í Háskólabrú og er núna að ljúka öðru ári í tæknifræðinámi Háskóla Íslands og Keilis. Viðtalið birtist í 13. maí 2016.

Ég er á alveg hárréttum stað

Þórir Sævar Kristinsson starfaði sem blikksmiður þegar hann ákvað að skella sér í Háskólabrú Keilis, 27 ára gamall. Hann gerði sér lítið fyrir og dúxaði. Nú er hann að ljúka öðru ári sínu í tæknifræði í Keili og líkar bæði námið og lífið á Ásbrú afar vel.

„Ég stefndi alltaf að því að fara í háskóla en var rosalega smeykur við háskólanám og hélt að það væri mjög erfitt. Háskólabrúin í Keili var því mjög góður undir- búningur og gaf mér aukið sjálfs- traust,“ segir Þórir sem er með sveinspróf í blikksmíði og starf- aði við fagið til 27 ára aldurs. „Mig langaði að læra tæknifræði eða verkfræði en vantaði að bæta við mig töluvert af raungreinum. Því ákvað ég að fara í raungreinadeildina í Háskólabrúnni hjá Keili sem er 80 einingar,“ segir Þórir sem tók námið í dagskóla á þremur önnum.

„Mér líkaði námið mjög vel og var mjög sáttur við þetta lærdómsríka og skemmtilega ár. Ekki skemmdi fyrir að hópurinn minn varð mjög náinn,“ segir Þórir sem kunni afar vel að meta hina svokölluðu spegluðu kennsluaðferð sem notuð er í Háskólabrúnni. „Þá horfir maður á fyrirlestrana á netinu og mætir svo í tíma til að vinna verkefni. Þannig hefur maður meiri aðgang að kennaranum.“

Það kom Þóri skemmtilega á óvart að hann skyldi verða dúx. „Aðallega af því að ég lagði litla áherslu á áfanga eins og íslensku og ensku en meiri á raungreina- áfangana sem ég hafði meiri áhuga á.“

Eftir að Háskólabrúnni lauk fór Þórir að líta í kringum sig eftir há- skólanámi. „Ég fór í viðtal í Keili og varð strax sannfærður eftir það,“ segir Þórir. Tæknifræði- nám í Keili varð því fyrir valinu haustið 2014 en Þórir er að ljúka sínu öðru ári í vor og á eitt ár eftir. „Þetta er þriggja og hálfs árs nám sem kennt er á þremur árum,“ útskýrir hann.

En hvernig líkar honum námið? „Ég er á hárréttum stað. Ég er í rafeinda- og hugbúnaðartæknifræði eða svokallaðri mektatróník. Það passar beint inn á mitt áhuga- svið enda er þar fengist við forritun og annað sem snýr að stýribúnaði í vélum og þvíumlíku.“

Hann útskýrir að deildin í Keili sé á vegum Háskóla Íslands. „En það fylgja því miklir kostir að vera hér því bekkirnir eru litlir og við nemendurnir fáum því mikið aðgengi að kennurunum. Maður lendir ekki í því að vera einn af 300 nemendum sem aldrei ná tali af kennaranum. Þetta er því allt mjög heimilislegt myndi ég segja.“ Þórir segir lífið á Ásbrú mjög fínt. „Hér er leigan tiltölulega lág og alger lúxus að eiga heima rétt hjá skólanum. Ég læri til dæmis allaf uppi í skóla og ef mikið er að gera er ég þar langt fram eftir kvöldi enda hafa nemendur alltaf aðgang að skólanum. Þar er mjög góð aðstaða, rafmagnsstofur og smiðja þar sem hægt er að smíða íhluti sem við þurfum.“

Upphaflega ætlaði Þórir að fara beint út á vinnumarkaðinn eftir útskrift, enda kominn með starfsheitið tæknifræðingur. „En okkur fjölskylduna, kærustuna mína og strákinn okkar, langar að fara til Danmerkur og líklega fer ég í áframhaldandi nám og tek mastersgráðu. Ég held að maður hafi gott af því að víkka sjóndeildarhringinn.“ 


Tengt efni