Aukin nýting afurða í kræklingaræktun á Íslandi

Óli Ragnar Alexandersson
Óli Ragnar Alexandersson

Dagana 26. - 29. maí fara fram varnir lokaverkefna hjá útskriftarnemum í tæknifræðinámi Háskóla Íslands og Keilis. Kynningarnar fara fram í aðalbyggingu Keilis og eru öllum opnar nema annað sé tekið fram.

  • Heiti verkefnis: Aukin nýting afurða í kræklingaræktun á Íslandi
  • Nemandi: Óli Ragnar Alexandersson
  • Tímasetning: Þriðjudagur 26. maí, kl. 14:00

Lýsing: Kræklingaræktun er tiltölulega ný atvinnugrein á Íslandi. Síðastliðin ár hefur greinin verið í örum vexti og ný fyrirtæki hafið framleiðslu. Við kræklingaræktun er þó einungis helmingurinn af uppskerunni seljanlegur á markað. Á Íslandi er hinum helmingnum, sem kallast hrat, kastað aftur út í sjó. Hratið inniheldur að mestu brotnar skeljar og krækling sem uppfyllir ekki kröfur kaupandans um stærð. Fyrirtækið Íslandsskel sem er með eina stærstu kræklingaræktun á Íslandi kom með þá fyrirspurn hvort möguleiki væri á að nýta þetta hrat kræklingsins og í leiðinni auka arðsemi greinarinnar.

Rannsókn verkefnisins snérist annars vegar um að skoða hvort sambærileg vinna hefði átt sér stað og/eða hvort hratið væri nýtt einhverstaðar í heiminum. Hins vegar voru framkvæmdar ýmsar greiningar á rannsóknarstofu Orkurannsókna ehf. í Keili, s.s þurrvigtun, fitumæling, mæling á próteinstyrk og mæling á steinefnum, með það fyrir stafni að kynnast hverskonar hráefni væri verið að vinna með. 

Rannsóknir hafa sýnt fram á að sjávarlífverur innihalda gæða prótein. Við niðurbrot á þessum próteinum myndast lífvirk peptíð. Sýnt hefur verið fram á að þessi peptíð hafi margvísleg áhrif á líkamann og eru talinn heilsueflandi. Þau hafa meðal annars verið rannsökuð til meðhöndlunar á ýmsum sjúkdómum s.s blóðþrýstingslækkun, krabbameinsvörn og vörn gegn því að blóðtappi myndast. Í Kanada var framkvæmd rannsókn á áhrif lífvirkra peptíða úr kræklingshrati á krabbameinsfrumur. Í flestum tilfellum stöðvaðist fjölgun frumnanna. Hratið inniheldur þó að mestu leyti skeljar þar sem kalk magn er ríkjandi. Því hefur það verið nýtt sem áburður á jarðveg með fínum árangri. 

Það er margt sem bendir til þess að arðbært sé að nýta þetta hrat. Margar rannsóknir á þessu sviði eru þó á byrjunarstigi og allflestar rannsóknir á peptíðum á eftir að prófa á mannfólk. Þetta gæti þó verið tækifæri til þess að stækka greinina og auka arðsemina á kræklingaræktun á Íslandi.


Tengt efni