Aukið samstarf Keilis og Algalífs

Frá undirritun samstarfs Keilis og Algalífs
Frá undirritun samstarfs Keilis og Algalífs

Keilir - Miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs og líftæknifyrirtækið Algalíf hafa undirritað samstarfssamning með það að markmiði að efla tengsl fyrirtækjanna á sviði rannsókna og þróunar. Með samningnum á að efla sameiginlegar rannsóknir og aukið samstarf með verkefnum nemenda í tæknifræðinámi, notkun á rannsóknaraðstöðu, þróunarverkefnum, kynningarstarfi og þátttöku í klasastarfi um þróun nýrra námsbrauta í líftækni. 

Hjálmar Árnason, framkvæmdastjóri Keilis, og Skarphéðinn Orri Björnsson, framkvæmdastjóri Algalífs, undirrituðu samninginn í rannsóknaraðstöðu tæknifræðináms Háskóla Íslands og Keilis, á Ásbrú í Reykjanesbæ. Þeir vænta mikils af samningnum enda fer líftæknimarkaðurinn ört stækkandi með þar til fallandi þörfum fyrir sérhæfðri aðstöðu til efnafræðirannsókna og sérþjálfaðs starfsfólks. 

Algalíf starfrækir örþör­unga­verk­smiðju á Ásbrú og er stefnt á að framleiðslan nái full­um af­köst­um á næsta ári og verða starfs­menn þá um 30 tals­ins. Keilir hefur síðan árið 2010 boðið upp á háskólanám í tæknifræði á vegum Háskóla Íslands þar sem mikil áhersla er lögð á náið samstarf við fyrirtæki og atvinnulíf, meðal annars með nemendaverkefnum. Boðið er upp á nám á tveimur línum, mekatróník hátæknifræði og orku- og umhverfistæknifræði, en fyrirhugað samstarf við Algalíf mun sér í lagi nýtast nemendum á þeirri námslínu.

Mynd: Skarphéðinn Orri Björnsson, framkvæmdastjóri Algalífs og Hjálmar Árnason, framkvæmdastjóri Keilis.


Tengt efni