Um tæknifræðinám hjá Keili

Keilir býður upp á háskólanám (BS gráðu) í tæknifræði á vegum Háskóla Íslands. Námið fer fram á vettvangi Keilis á Ásbrú. Boðið eru upp á tvær námslínur: Iðntæknifræði fyrir efna- og lítækniiðnað þar sem nemendur læra efna- og líftækniferla samhliða þeirri þekkingu sem þarf til að hanna tilsvarandi framleiðsluferla; og Mekatróník hátæknifræði, þar sem nemendur læra að hanna og smíða rafeinda- og tölvustýrðan búnað til að bæta dagleg lífsgæði fólks og að auka sparnað og hagkvæmni í rekstri fyrirtækja. Við bjóðum upp á:

 • Fyrsta flokks rannsóknaraðstöðu í skapandi umhverfi frumkvöðla og fyrirtækja á Ásbrúar svæðinu.
 • Einstakt tækifæri til að vinna við þróunar- og nýsköpunarverkefni og afla sér ómetanlegrar þekkingar.
 • Menntun sem býr nemendur undir að takast skipulega á við krefjandi verkefni atvinnulífsins af sjálfstrausti og færni.
 • BS gráðu í tæknifræði auk viðbótarnáms til að sækja um starfsheitið tæknifræðingur.

Starfssvið tæknifræðinga

Iðntæknifræði fyrir efna- og líftækniiðnað:

 • Nýsköpun, störf tengd orku- og matvælaiðnaði, fullvinnslu sjávar- og landbúnaðarafurða.
 • Þróun og vinna við efnavinnslu og notkun á umhverfisvænum orkugjöfum.
 • Hönnun, rekstur og viðhald á framleiðslubúnaði í efna- og líftækniiðnaði.

Mekatróník:

 • Þróun tæknilausna fyrir sjávarútveg og heilbrigðisgeirann.
 • Hönnun stýringa og rafeindabúnaðar.
 • Mekatróník á þátt í að skapa tækni framtíðarinnar. Hér koma brautryðjendur og búa til sín eigin tækifæri.

Kennslan

Til að ná árangri er lögð áhersla á að kenna nemendum grunnatriði tæknifræðinnar og tryggja skilning þeirra á námsefninu. Þetta næst með:
 
 • Verkefnum sem eru byggð á raunverulegum viðfangsefnum.
 • Verklegum æfingum til að staðfesta fræðin.
 • Verklegum æfingum til að leyfa nemendum að prófa nýjar hugmyndir.
 • Krefjandi keppnum á milli nemenda.
 • Fyrsta flokks aðstöðu.

Menntun er hugarleikfimi, úrvinnsla upplýsinga og þrautseigja, ekki einföld viðtaka upplýsinga. Nemendur verða sjálfir að hafa áhuga á og bera sig eftir þeirri hagnýtu þekkingu og reynslu sem þeim býðst í náminu hjá tæknifræðideild Keilis. 

Uppsetning námsins

 • 80 ECTS einingar á ári í stað 60 (að námi loknu alls 210 ECTS)
 • Námslán allt árið
 • Styttri og hnitmiðaðri námskeið
 • Námi lýkur fyrr

Skemmri námstími þýðir fyrst og fremst að fólk kemst fyrr út í atvinnulífið með menntun og full réttindi. Sérhæfing er góð en sá breiði bakgrunnur sem fæst með þverfaglegu námi í tæknifræðideild Keilis veitir aðra sýn á lausn verkefna og gerir útskrifuðum nemendum okkar mögulegt að vinna sem sérfræðingar á þeim sviðum sem höfða til þeirra eða sem verkefnisstjórar þverfaglegra vinnuhópa.

Stefna og hlutverk tæknifræðináms Keilis

Keilir leitast við að vera í forystu um tæknifræðimenntun og nýsköpun í samstarfi við atvinnulífið. Keilir menntar tæknifræðinga með áherslu á hagnýta þekkingu, reynslu og góða samskiptahæfni.