Vindorka

Tæknifræðinám Keilis hefur sett upp vindmylluna "Kára" á Ásbrú sem nýtist við kennslu og rannsóknir í náminu.

Vindmyllan er framleidd af Fálkanum, en vindrafstöðvar af þessu tagi hafa sérstaklega verið þróaðar fyrir íslenskt veðurfar og aðstæður. Þær eru meðal annars notaðar fyrir sjálfvirkar veður- og mælistöðvar við vegi og á fjöllum, við sumarhús, fjallakofa og seglskútur.

Vindmyllan knýr 100 W túrbínu til rafmagnsframleiðslu en auk þess er staðsettur á henni sjálfvirkur búnaður til að mæla vindhraða og hitastig. Gögnin eru nýtt af Veðurstofu Íslands og vistuð í gagnagrunni stofnunarinnar undir sjálfvirku veðurmælingastöðinni "Asbru #1351". Vindmyllan, gögn og mælibúnaður er einnig nýtt í kennslu og rannsóknir nemenda í tæknifræðinámi Keilis, meðal annars í orku- og umhverfistæknifræði og mekatróník hátæknifræði.

Orkurannsóknir ehf. kemur að uppsetningu vindmyllunnar og nýtir búnaðinn til rannsókna meðal annars á skilyrðum til nýtingar á vindorku á Íslandi, auk hagkvæmni á nýtingu vindorku við vetnisframleiðslu.