Orku- um umhverfistæknifræði

Frá og með árinu 2016 eru ekki lengur innritaðir nemendur í Orku- og umhverfistæknifræði á vegum Háskóla Íslands og Keilis. Áhugasömum er hinsvegar bent á nýja námsbraut í Framleiðslutæknifræði (áður iðntæknifræði) fyrir efna- og líftækniiðnað sem hefst haustið 2017.

Námið í Orku- og umhverfistæknifræði hjá Keili er þverfaglegt háskólanám og snýst um orku og umhverfisþætti. Aðal áhersla námsins er jarðvarmaorka og, í tengslum við hana, að nemendur öðlist skilning á þeim tæknilegu atriðum sem tengjast því sem gerist bæði neðan sem og ofan yfirborðs jarðar. Beislun annarrar grænnar og endurnýjanlegrar orku eins og sólar-, vind-, sjávar- og efnaorku verður einnig viðfangsefni námsins.

Boðið upp á námið í samstarfi við Háskóla Íslands

Orku- og umhverfistæknifræði er háskólanám á vegum Háskóla Íslands en fer fram á vettvangi Keilis á Ásbrú. Nemendur eru skráðir í Háskóla Íslands og útskrifast þaðan. Námið fer fram allt árið fyrir utan sex vikna sumarfrí sem gerir mögulegt að klára námið á þremur árum. Námið er lánshæft hjá LÍN samkvæmt reglum sjóðsins.  

Um nám í orku- og umhverfistæknifræði

Um er að ræða þverfaglegt nám þar sem veittur er sterkur grunnur í efnafræði og undirstöðu orkugreinum, auk sterks hagnýts grunns í því að nýta bæði rafeinda- og hugbúnað til að stjórna vélbúnaði, og notkun mælitækja. Meðal þess sem kennt verður má nefna: mælitækni til þess að ná upplýsingum úr umhverfinu, merkjavinnsla til að vinna úr upplýsingunum og stýritækni til að bregðast við upplýsingunum.

Breið undirstaða verður veitt í borholutækni, nýtingu jarðvarma, orkuvinnslu, orkuumbreytingu og dreifingu. Einnig verður kennt hvernig á að hanna vélhluti, velja efni m.t.t. tæringar, slits og þreytu. Auk þess verður nemendum kennd rafmagnsfræði, viðhaldstjórnun, rekstrarfræði og áhrif umhverfisþátta ásamt fleiri fögum sem eru mikilvæg í starfi orkutæknifræðinga.

Aðstaða og umgjörð

Kennsla og verklegar æfingar nemenda fara fram í fyrsta flokks aðstöðu í kennslustofum tæknifræðináms Keilis á Ásbrú. Aðstaða til náms og rannsókna er með því sem best gerist hér á landi og er stefnt að því að bæta enn frekar við aðstöðu skólans í framtíðinni. Í húsnæði skólans er fullkomin efnafræðistofa svo fátt eitt sé nefnt. Gott samstarf er við fyrirtæki í greininni sem stuðlar að gagnvirkum samskiptum við atvinnulífið og raunverulegum nemendaverkefnum.

Umsókn um nám