Námsframboð

Tæknifræði er þriggja og hálfs árs nám (210 ECTS einingar) sem veitir BS gráðu og rétt til að sækja um lögverndaða starfsheitið tæknifræðingur. Kennsla fer fram allt árið að undanskildu sex vikna sumarfríi. Nemendur eiga því kost á að ljúka náminu á þremur árum. Kennslan skiptist í haust- og vormisseri sem eru 30 ECTS einingar hvor, en að auki er boðið upp á 20 ECTS eininga sumarmisseri.

  • Kennslan fer fram á vettvangi Keilis á Ásbrú í Reykjanesbæ og staðnám er eingöngu í boði.
  • Áhugasamir geta sótt um námið á vef Háskóla Íslands.

Framleiðslutæknifræði (áður iðntæknifræði) fyrir efna- og líftækniiðnað

Nám í framleiðslutæknifræði leggur áherslu á efna- og líftækniferla samhliða þeirri þekkingu sem þarf til að hanna tilsvarandi framleiðsluferla. Námið nýtist þeim sem vilja vinna við nýsköpun, störf tengd orku- og matvælaiðnaði, fullvinnslu sjávar- og landbúnaðarafurða, líftækni- og lyfjaiðnað, efnavinnslu og notkun á umhverfisvænum orkugjöfum. Námslínan leggur áherslu á efnafræði, efnaferla og líftækni og nýtist þekking nemenda meðal annars við hönnun, rekstur og viðhald á framleiðslubúnaði í efna- og líftækniiðnaði. Sjá kennsluskrá hér
 

Mekatróník hátæknifræði með áherslu á tölvu- og véltækni

Mekatróník hátæknifræði er ein af þeim greinum tæknifræðinnar sem hefur verið að eflast mest síðustu áratugi. Orðið mekatróník, eða mechatronics á ensku, er samsett orð úr mechanisms og electronics. Í stuttu máli má segja að mekatróník fjalli um það þegar rafeinda- og hugbúnaðarfræði er notuð samhliða hönnun á vélbúnaði til þess að búa til sjálfvirkan og/eða vitrænan vélbúnað. Í náminu læra nemendur að hanna mekatrónísk kerfi, mæla og vinna úr mælingum til þess að stjórna vélbúnaði auk þess að læra nóga rafeindatækni til að geta búið til búnað til að mæla og vinna úr mælingum. Þetta nám nýtist öllum sem vilja vinna við raf- og rafeindastýrðan vélbúnað, hvort sem er í orku-, framleiðslu- eða öðrum iðnaði. Sjá kennsluskrá hér