Umhverfisvænir orkugjafar fyrir rekstur gistihúsa

Ólafur Jóhannsson kynnir lokaverkefni sitt í Orku- og umhverfistæknifræði Háskóla Íslands og Keilis mánudaginn 29. maí kl. 13:00. Verkefnið nefnist: „Hagkvæmnismat á uppsetningu umhverfisvænna orkugjafa fyrir rekstur gistihúsa“.

Í verkefninu var unnið hagkvæmnismat hagkvæmnismat á uppsetningu á þremur orkugjöfum, varmadælu, vindtúrbínu og sólarsellu fyrir gistihús á landsbyggðinni. Bornar eru saman tvær gerðir af varmadælu og sólarsellu auk fjögurra gerða af vindtúrbínum í tveimur stærðarflokkum.

Reiknuð er út orkuframleiðslugeta orkugjafanna og áætlaður uppsetningakostnaður og sparnaður af framkvæmdinni. Kannað er hvort framkvæmdin sé arðbær og ef svo er hversu mikið. Einnig er reiknað út hversu langan tíma það tekur fyrir framkvæmdina að skila arði. Niðurstaðan sýnir að varmadæla er hagstæðasti kosturinn miðað við aðstæður á staðnum, vindtúrbína kemur þar á eftir en sólarsella er ekki raunhæfur kostur.

Ólafur Jóhannsson er fæddur 21. desember 1968 í Reykjavík. Hann vann við hin ýmsu störf áður en hann lauk sveinsprófi í húsasmíði árið 1995 og vann við smíðar uppfrá því. Hann lauk stúdentsprófi árið 2009 við Fjölbrautarskólann í Breiðholti. Árið 2014 hóf hann nám í Orku- og umhverfistæknifræði á vegum Háskóla Íslands á vettvangi Keilis þaðan sem hann mun útskrifast í sumar.