Tölvustýrður úrhleypibúnaður

Óskar Smárason kynnir lokaverkefni sitt í Mekatróník hátæknifræði Háskóla Íslands og Keilis mánudaginn 29. maí kl. 15:00. Verkefnið nefnist: „ Tölvustýrður úrhleypibúnaður“.

Jeppaáhugamenn sem ferðast um hálendið að vetri til eiga það til að festa bifreiðar sínar í snjó. Til að komast hjá því að festast er lofti oft hleypt úr hjólbörðum bifreiðarinnar. Við það breikkar spor hjólbarðanna og bifreiðin fær meira grip. Ýmis búnaður, til að hleypa úr lofti hjólbarða, er nú þegar fáanlegur. Sá búnaður er yfirleitt aðeins handstýrður.

Markmið verkefnisins er að hanna frumgerð að tölvustýrðum úrhleypibúnaði fyrir hjólbarða. Frumgerð þessi samanstendur af farsíma, örtölvu, rafmagnslokum og þrýstinemum. Notandi á að geta stýrt búnaðinum í gegnum farsímann sinn, með aðstoð smáforrits.

Óskar Smárason er fæddur árið 1990 í Reykjavík. Óskar byrjaði í námi í vélarverkfræði árið 2010 en árið 2014 hóf hann nám í Mekatróník hátæknifræði á vegum Háskóla Íslands á vettvangi Keili þaðan sem hann mun útskrifast nú í sumar.