Þráðlausar mælingar μSproti

Þórir Sævar Kristinsson kynnir lokaverkefni sitt í Mekatróník hátæknifræði Háskóla Íslands og Keilis þriðjudaginn 30. maí kl. 11:00. Verkefnið nefnist: „Þráðlausar mælingar µSproti“.

Flutningsvaki er sjálfvirkur búnaður sem skrásetur hverskonar meðhöndlun varningur í flutning verður fyrir ásamt skrásetningu á  hitastigi, þrýsting og rakastigi. Í verkefninu var hönnuð og unnin hagkvæm lausn að jaðartæki við Flutningsvaka, sem ber nafnið µSproti. Tækið (µSproti) hefur þann tilgang að  mæla hitastig  og senda þráðlaust til Flutningsvaka til skrásetningar. Krafa er gerð um að tækið hafi smáa raunstærð, góða orkunotkun og hafi hverfandi áhrif á heildarþyngd farms í flutning. Tækið gerir fyrirtækjum kleift að fylgjast með hitastigi afurða og geta þar með aukið eftirlit og haft betri umsjón á vörunni þar til hún berst til byrgja.

Ígreypt kerfi er hannað og útfært sem notast við örtölvu, hitaskynjara, rauntímaklukku, þráðlausum sendi og öðrum rafeindaíhlutum sem saman myndar heilstæða lausn.

Frumgerðir voru útfærðar og smíðaðar sem safna gögnum frá hitaskynjara og senda þau þráðlaust. Rafrásir voru hannaðar og gerðar á prentplötu, tækin sett saman og tilrunaumbúðir útfærðar í þrívíddarprentara. Gerðar voru tilraunir á drægni þráðlausra sendinga, orkunotkun og hitamælingum.

Þórir Sævar Kristinsson er fæddur árið 1986 í Sandgerði. Hann starfaði sem blikksmiður og lauk sveinsprófi í blikksmíði árið 2009. Árið 2013 hóf hann nám í háskólabrú Keilis á verk og raungreinadeild, þar sem hann útskrifaðist síðan árið 2014. Þá hóf hann nám í Mekatróník hátæknifræði á vegum Háskóla Íslands á vettvangi Keilis, þaðan sem hann mun útskrifast í sumar.