Kynning á lokaverkefni um aukna sjálfvirkni á súrálsflæði inn á hreinsivirki

Sigurjón Kristinn Björgvinsson
Sigurjón Kristinn Björgvinsson
Sigurjón Kristinn Björgvinsson kynnir lokaverkefni sitt í Mekatróník hátæknifræinámi Háskóla Íslands og Keilis mánudaginn 9. október kl. 12:00. Verkefnið nefnist „Er hægt að auka sjálfvirkni á súrálsflæði inn á hreinsivirki“ og fer kynningin fram í aðalbyggingu Keilis á Ásbrú.
 
Verkefnið var unnið í samstarfi við Alcoa Fjarðaál og gekk út á að skoða búnað hreinsivirkja og flutningskerfi þeirra. Athugað var hvort hægt væri að nota eftirlitsmælingar sem þegar eru til staðar til að útfæra sjálfvirka stýringu á súrálsflæði, þar með draga úr losun á vetnisflúoríði (HF) út í umhverfið og auka frammistöðu hreinsunarinnar. 
 
Hreinsivirkin sjúga HF, sem er gas sem verður til við rafgreiningu, og hreinsar gasið með upptöku flúorsins í nýju súráli. Súrálsflæði hefur stjórnast af magni súráls í safnsílóum en ekki HF í útblæstri, en staða sílóanna þarf að vera innan vissara marka. Flæði súráls er stillt af starfsmönnum umhverfisteymis með notkun stjórntölvu. Í vinnuumhverfinu hafa starfsmennirnir ekki tök á að fylgja eftir samfelldu eftirliti með losun, sem þó væri æskilegt ef hægt á að vera að  bregðast við breytingum á súrálsflæði hvenær sem þörf er. Mælingar og tilraunir sem framkvæmdar voru sýndu að grundvöllur er fyrir því að útfæra sjálfvirka stýringu á innmötun súráls inn á hreinsivirkin út frá losun HF og stöðu sílóa. 
 
Sigurjón Kristinn Björgvinsson er fæddur 1988 á Egilsstöðum. Sigurjón hóf lauk námi af verk- og raunvísindadeild Háskólabrúar Keilis árið 2013. Sama ár hóf hann nám í Mekatróník hátæknifræði á vegum Háskóla Íslands á vettvangi Keilis þaðan sem hann mun nú útskrifast.