Hljóðnema og ljóskerfi fyrir hljóðfæri

Steinþór Jasonarson kynnir lokaverkefni sitt í Mekatróník hátæknifræði Háskóla Íslands og Keilis mánudaginn 29. maí kl. 14:00. Verkefnið nefnist: „Hljóðnema og ljóskerfi fyrir hljóðfæri“.

Í verkefninu er lagður grunnur að hljóðgreiningartæki fyrir tónlistarnám. Nýjungin við tækið er samtenging hljóðs og ljóss til að styrkja og hraða lærdóm nemandans.

Tækið gefur notanda tækifæri til að velja vissa liti og tengja þá við nótur, eða tegundir af hljómum. Tækið samanstendur af nokkrum íhlutum sem, þegar þeir hafa verið tengdir saman, kallast ígreypt kerfi. Helstu íhlutir eru örtölva, (e. microcontroller), bluetooth samskiptabúnaður, hljóðnemi og Light Emitting Diode (LED) ljós. Greining og val á örtölvu er gerð til að finna örtölvu sem hentar best að greiningar þörfum tækisins ásamt útreikningum á orkunotkun frumgerðar.

Algrím sem hentar í greiningu á tónum og hljómum og byggir á Fast Fourier Transform (FFT) greiningu hljóðs er rannsakað og hannað. fFundin er leið til að auka nákvæmni tíðnigreiningar, til að útiloka bakgrunnshljóð og eyða tíðnum sem eru margfeldi af grunntíðni nótu. Algrímið er svo prófað á þessum forsendum til að greina virkni þess. Afrakstur verkefnisins er að frumgerð sem nær að greina bæði nótur og hljóma og gefa frá sér litað ljós sem endurspeglaði val notanda.

Steinþór Jasonarson er fæddur 22. júlí 1978 í Reykjavík.  Hann hefur unnið sem kerfisfræðingur hjá Nýherja, TM Software, og sem söngvari hjá Íslensku óperunni. Frá árinu 2014 hefur hann verið við nám í Mekatrónískri hátæknifræði á vegum Háskóla Íslands á vettvangi Keilis þaðan sem hann mun útskrifast í sumar.