Nýting á kísil frá Reykjanesvirkjun

Ólöf Ögn Ólafsdóttir kynnir lokaverkefni sitt í Orku- og umhverfistæknifræði Háskóla Íslands og Keilis þriðjudaginn 30. maí kl. 14:00. Verkefnið nefnist: „Nýting á kísil frá Reykjanesvirkjun til ræktunar og iðnaðar“.

Kísill fellur til í þúsundum tonna hjá Reykjanesvirkjun en þar er heitur jarðsjór aðskilinn frá gufunni í skiljustöð og er hann ónýtanlegur, meðal annars vegna kísilsins sem hann hefur að geyma. Jarðsjórinn inniheldur auk kísils sölt, aðallega natríum klóríð en möguleiki er að hreinsa hann nógu vel til að eftir standi 98-99,9% kísildíoxíð.

Verðmæti kísils eru mjög háð hreinleika hans, yfirborðsflatarmáli og holustærð. Hreinn kísill er meðal annars notaður í ýmiskonar iðnað í formi kísilsands eða iðnaðarsands en til að það sé hægt þá er gerð lágmarkskrafa um hreinleika hans sem er 95%. Kísill er meðal annars notaður í glergerð, sem fylliefni í málningu og þekjuliti, dekkjagúmmí, steypu og fleira. Verkefni þetta skiptist niður í þrjá hluta þar sem fyrsti hlutinn felst í því að hreinsa kísilinn frá Reykjanesvirkjun nægilega vel til að hann stæðist lágmarkskröfur um hreinleika, annar hluti verkefnisins snýst um að nota kísilinn sem íblöndunarefni í gróðurmold og að lokum felst þriðji hlutinn í því að kanna notkunarmöguleika hans í glergerð og sem fylliefni í málningu.

Ólöf Ögn Ólafsdóttir er fædd árið 1983 í Keflavík. Eftir að hafa unnið við hin ýmsu störf í gegnum tíðina ákvað hún að setjast á skólabekk og skráði sig í dreifinám í Menntastoðum haustið 2012. Haustið 2013 hóf hún nám í háskólabrú Keilis á verk og raunvísindadeild og útskrifaðist þaðan 2014. Frá árinu 2014 hefur Ólöf stundað nám í Orku- og umhverfistæknifræði á vegum Háskóla íslands á vettvangi Keilis þaðan sem hún mun útskrifast í sumar.


Tengt efni