Handbók nemenda - Háskólabrú fjarnám

Keilir Haust 2015 - Birt með fyrirvara um breytingar. Smelltu á viðeigandi yfirflokka til að nálgast nánari upplýsingar. Almennar upplýsingar um húsnæðismál, skólagjöld, siðareglur, þjónustu og tölvumál má nálgast í Handbók nemenda - Almennur hluti.

 • 1 Námið

  Kæri nemandi.

  Um leið og við bjóðum þig velkominn til starfa er mikilvægt að fara yfir nokkur hagnýt atriði varðandi uppbyggingu og skipulag skólans. Við vonum að handbók þessi auðveldi þér fyrstu skrefin í náminu og biðjum við þig að kynna þér innhaldið vel.

  Fjarnám í Háskólabrú Keilis er 12 mánaða undirbúningur fyrir háskólanám. Háskólabrúin er þróuð í samstarfi við Háskóla Íslands. Kennsluhættir eru með því móti að áhersla er lögð á kennslu og þjónustu með þarfir fullorðinna nemenda í huga.

  Námsgreinarnar eru kenndar í lotum í fjarnámi og þeim lýkur yfirleitt með prófi sem haldið er á fimmtudögum (kl. 9.15 -12.15). Í upphafi hverrar námsgreinar mæta nemendur í staðlotu/vinnuhelgi sem stendur yfir frá föstudegi kl. 9-16 og á laugardegi frá kl. 9-16 (með fyrirvara um breytingar). Eftir það eru nemendur í sambandi við kennara og samnemendur í gegnum kennslukerfið Moodle. Kennurum er uppálagt að svara fyrirspurnum nemenda innan sólarhrings.

  Dagskrá fjarnáms má finna á vefsíðunni hér: Dagskrá: Háskólabrú - fjarnám

  • 1.1 Vinnuhelgar

   Æskilegt er að nemendur mæti á vinnuhelgar. Nemendur sem eiga ekki heimangegnt eiga þess kost að fylgjast með í beinni útsendingu. Á fyrstu vinnuhelgi er kynning á skólanum, náminu og námsumhverfinu ásamt hópefli sem hefur reynst mikilvægt í upphafi náms.

   Á vinnuhelgum vinna nemendur raunhæf verkefni saman og kennari er til aðstoðar. Athugið að verkefni sem unnin eru á vinnuhelgum skal skilað fyrir lok vinnuhelgar, nánari upplýsingar hjá kennurum.

   Nemendur vinna bæði einstaklingsverkefni, paraverkefni og hópverkefni. Í hóp- og paraverkefnum þjálfast nemendur í samvinnu og nýta sameiginlega reynslu sína í lausn að verkefnum. Kröfur eru gerðar til nemenda hvað varðar vönduð vinnubrögð og sjálfstæði í lausn á verkefnum. Þá verða nemendur þjálfaðir í framsögn, skriflegum og munnlegum skilum á verkefnum á vinnuhelgum (staðlotum).

  • 1.2 Kennsla á Háskólabrú

   Kennsluhættir á Háskólabrú miða við þarfir fullorðinna nemenda, miklar kröfur eru gerðar um sjálfstæði í vinnubrögðum og eru raunhæf verkefni lögð fyrir.

   Eins og alltaf þá bera nemendur sjálfir ábyrgð á námi sínu og ástundun. Mikilvægt að mæta á allar vinnuhelgar.

   Nemendur verða að hafa fartölvu meðferðis í skólann.

  • 1.3 Hvað er vendinám?

   Á Háskólabrú er lögð megin áhersla á svokallaða speglaða kennsluhætti eða vendinám (flipped classroom). Með því er átt við að hefðbundinni kennslu er snúið við. Fyrirlestrar og kynningar kennara eru vistuð á netinu. Nemendur geta horft/hlustað á kynningarnar eins oft og þeim sýnist og hvar sem þeim sýnist. Þá geta nemendur sent spurningar um efnið til kennara (eða annarra nemenda í hópnum) og fá svör á netinu sem öllum eru opin. Þá eru nemendur hvattir til að nota netið til að finna heppilegt kennsluefni.

   Kennslustundir í skólanum verða fyrir vikið öðruvísi. Þar vinna nemendur verkefnin, oftast saman í hóp, og kennarar aðstoða eftir þörfum við úrlausnir. Þar sem þetta form hefur verið reynt virðist lærdómurinn verða lifandi ferli sem virkjar nemendur á skemmtilegan hátt. Kennslan á Háskólabrú er í vendinámsformi þannig að nemendur hlusta/horfa á fyrirlestra heima en vinna heimavinnuna í skólanum. Nám er alltaf á ábyrgð nemenda og undirbúningur fyrir verkefnatímana í skólanum er nauðsynlegur til þess að vinnan í skólanum nýtist á virkan hátt.

   Keilir hefur látið vinna röð stuttra upplýsingamyndbanda um vendinám sem er hægt að nálgast á YouTube.

   Myndbönd um vendinám

  • 1.4 Fyrirvari um breytingar

   Vakin er athygli á því að skipulag námsins er birt með fyrirvara um breytingar og deildarstjóri áskilur sér rétt til að breyta skipulagi ef þurfa þykir. Nemendur eru upplýstir um allar breytingar með fyrirvara.

  • 1.5 Fyrirlestrar

   Meginreglan er sú að í hverju fagi eru settir tveir fyrirlestrar á Moodle í viku hverri.  Stærðfræðin er kennd á hálfum hraða og er þá einn fyrirlestur í viku á Moodle. 

  • 1.6 Stoðtímar í stærðfræði

   Keilir býður fjarnemendum sínum upp á stoðtíma í stærðfræði. Þessir tímar eru einu sinni í viku, klukkutíma í senn með kennara.  Þeir sem ekki hafa tök á að mæta geta nálgast upptökur stoðtíma á Moodle.

  • 1.7 Verkefnavinna

   Margvísleg verkefni eru lögð fyrir í hverjum áfanga. Leitast er við að hafa fjölbreytni að leiðarljósi. Þannig vinna nemendur einstaklings-, para- eða hópverkefni.

   Hópavinna gengur út á að nemendur vinna saman og eiga í samskiptum varðandi verkefni. Ef samstarfsvandamál koma upp skulu nemendur hafa samband við kennara.

  • 1.8 Meðferð upplýsinga og heimilda

   Mikilvægt er að nemendur fylgi fyrirmælum skólans og kennara við lausn verkefna. Óheimilt er með öllu  að nýta sér hugverk annarra í ritgerðum, verkefnum og prófum, nema heimilda sé getið í samræmi við viðurkennd fræðileg vinnubrögð. Ritstuldur er ekki liðinn við skólann, ef nemendur verða uppvísir að slíku hvort sem um ræðir verkefni eða lokapróf er nemandi áminntur og prófið/verkefnið látið niður falla.

  • 1.9 Verkefnaskil

   Skilafrestur á verkefnum kemur fram í kennsluáætlun kennara.  

   • Dregið er 1 frá einkunn, fyrir hvern byrjaðan sólarhring frá skiladegi. Ekki er tekið við verkefnum eftir þrjá daga frá skiladegi (athugið að annað fyrirkomulag gildir á vinnuhelgum). Dæmi: Ef skil eru á mánudegi, þá er ekki hægt að skila verkefni eftir fimmtudag. Á þetta við um alla áfanga. Mikilvægt er að halda áætlun í verkefnaskilum þar sem farið er yfir mikið efni á stuttum tíma.

   • Nemendur verða að ná lágmarkseinkuninni 5 fyrir þau verkefni sem lögð eru fyrir í hverju fagi. Gefin er verkefnaeinkunn sem er vegið meðaltal allra verkefna vetrarins. Verkefnaeinkunn gildir yfirleitt 50% af heildareinkunn áfangans á móti prófseinkunn sem gildir 50%. Nemendur verða einnig að ná lágmarkseinkuninni 5 fyrir prófhlutann til að ná áfanganum. Lokaeinkunn samanstendur af verkefnaeinkunn og prófseinkunn.
  • 1.10 Úrsögn úr áfanga

   Skráning úr áfanga í fjarnámi þarf að hafa borist kennslusviði eigi síðar en 10 dögum eftir að áfangi hefst. Ef nemandi sinnir ekki áfanganum og skráir sig ekki úr honum á tilskildum tíma birtist áfanginn sem fall á INNU.

 • 2 Moodle (kennslu- samskiptaforrit)

  Öll námsgögn og samskipti milli kennara og nemenda fara fram í kennslu- og samskiptaforritinu Moodle. Mikilvægt er að nemendur fari reglulega inn á Moodle til að fylgjast með hverjum áfanga fyrir sig. Brýnt er að nemendur fylgist með tölvupósti daglega, allar upplýsingar frá skólanum og milli nemenda eru sendar í tölvupósti.

  Í fyrstu vinnuhelgi er farið ítarlega yfir virkni Moodle.

 • 3 Tölvusamskipti

  Eins og fram hefur komið þá er mikil áhersla á tölvunotkun hjá Keili þar sem námsgögn og samskipti fara fram í gegnum tölvur. Allir starfsmenn og nemendur Keilis eru beðnir um að hafa í huga að um tölvusamskipti gilda almennar reglur um kurteisi.

 • 4 Námsgjöld

  Nám á Háskólabrú er sett upp samkvæmt reglum LÍN sem lánar sérstaklega fyrir námsgjöldum. Námið veitir einnig þeim sem uppfylla skilyrði LÍN rétt til framfærsluláns. Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu LÍNUpplýsingar um námsgjöld á Háskólabrú Keilis má nálgast hérna.

  Nemendur í fjarnámi HBR verða að segja sig úr áfanga eigi síðar en 10 dögum frá því að áfangi hefst til þess að geta átt námsgjöld inni. Námsgjöld geta gilt á Háskólabrú í tvö ár frá því nemandi hóf nám. Athugið að 10% umsýslugjald er tekið af upphæðinni.

  Ef nemandi nær ekki lágmarkseinkunn í áfanga getur hann endurtekið hann og greiðir þá 60% af heildarverði áfangans (gildir í tvö ár frá upphafi náms). Athugið að nemandi getur ekki setið einstaka áfanga oftar en þrisvar sinnum.

 • 5 Próf

  Eftir hverja lotu eru lokapróf sem haldin eru í Keili eða hjá viðurkenndum aðilum sem verkefnastjóri fjarnáms samþykkir. Nemendur sem taka ekki lokaprófin sín í aðalbyggingu Keilis á Ásbrú, greiða sjálfir þann próftökukostnað sem til fellur. Í lok vinnuhelgar þarf að liggja fyrir hvar nemendur hyggjast taka lokapróf.

  Prófafyrirkomulag liggur fyrir í upphafi áfanga. Lokapróf í áfanga eru ýmist með gögnum, án gagna eða sambland af hvoru tveggja. Í gagnaprófum reynir á skilning og heildaryfirsýn. Þannig þjálfa nemendur sjálfstæð vinnubrögð sem nýtast í háskólasamfélaginu og atvinnulífinu.

  Á Moodle geta nemendur fundið gömul próf undir áfanganum „Gömul próf“. Prófsýning er auglýst sérstaklega fyrir hvern áfanga.

  • 5.1 Gagnapróf og gagnalaus próf

   Próf eru ýmist gagnalaus eða með gögnum. Þegar um gagnapróf er að ræða þá mega nemendur t.d. hafa með sér skrifaðar glósur. Kennari ákveður magnið og einnig hvort hann leyfi einnig kennslubókina eða önnur gögn. Þá ákveður kennari framkvæmd prófa og er heimilt að leggja fyrir nemendur próf án gagna.

  • 5.2 Krossapróf

   Kennari getur lagt fyrir krossapróf hvenær sem er á meðan áfanginn varir. Krossaprófin eru þá tekin á kennsluvef skólans á þeim stað sem nemandinn er staddur hverju sinni. Krossapróf eru alltaf einstaklingsverkefni.

  • 5.3 Munnleg próf

   Í munnlegum prófum er prófdómari viðstaddur. Nánar er tilgreint um fyrirkomulag munnlegra prófa í námskeiðslýsingu. 

  • 5.4 Sjúkrapróf

   Ef nemandi kemst ekki í próf vegna veikinda þarf hann að skila vottorði innan þriggja daga frá dagsetningu prófs með því að skrá sig í sjúkrapróf á heimsíðu skólans og hafa vottorðið í viðhengi.

   Skráning í sjúkra- og upptökupróf.

   Athugið að nemandi sem mætir í sjúkrapróf á ekki kost á upptökuprófi ef hann nær ekki sjúkraprófinu. 

  • 5.5 Upptökupróf

   Nemandi sem ekki nær lágmarkseinkunninni 5 á misserisprófi hefur rétt á að taka upptökupróf og greiðir fyrir það samkvæmt gjaldskrá Keilis. Fær viðkomandi þá hæst einkunnina 5 fyrir prófið. Tímasetning upptökuprófa er auglýst sérstaklega og þarf nemandinn að skrá sig í prófið þremur virkum dögum fyrir prófdag.

   Skráning í upptöku- og sjúkrapróf.

   Ef nemandi nær ekki upptökuprófi gefst honum kostur á að sitja áfangann aftur þegar hann verður næst kenndur við Keili.

   Nemandi sem á einungis eitt fag eftir til að útskrifast af Háskólabrú vegna falls á sjúkra- eða upptökuprófi, getur sótt um að taka svokallað þriðja próf í því fagi og greiðir fyrir samkvæmt gjaldskrá. Gildir þetta um þá áfanga sem hafa hefðbundin próf sem lokanámsmat. 

   Þeir sem hafa ekki gert upp skólagjöld sín fá ekki afhentar einkunnir fyrr en greiðsla hefur borist.

  • 5.6 Einkunnaskali fyrir verkefnavinnu og prófúrlausnir

   • 10,0 fyrir frábæra úrlausn sem sýnir skapandi, gagnrýna hugsun og innsæi. Einkunn sem einungis er gefin fyrir úrlausn sem skarar fram úr öðrum.
   • 9,0 - 9,5 fyrir mjög góða úrlausn sem sýnir sérstakan skilning og færni.
   • 8,0 - 8,5 fyrir ágæta úrlausn, sem sýnir góða þekkingu á efnisatriðum og skilning.
   • 7,0 - 7,5 fyrir úrlausn sem sýnir greinargóða þekkingu á grundvallaratriðum.
   • 5,5 - 6,5 fyrir úrlausn sem sýnir sæmilega þekkingu á grundvallaratriðum.
   • 5,0 fyrir úrlausn sem uppfyllir skilyrði um lágmarksþekkingu á grundvallaratriðum eða ef um úrbót á fyrri úrlausn er að ræða.
   • 0 - 4,5 fyrir óviðunandi úrlausn, þ.m.t. úrlausn þar sem slíkur misskilningur eða vanþekking á grundvallaratriði kemur fram að þyki óviðundandi án tillits til vægis þess þáttar sem ábótavant er innan úrlausnar.
   • M fyrir metið.
   • S fyrir staðið án prófs.
  • 5.7 Einkunnaskil

   Kennarar hafa 10 virka daga til að skila einkunnum úr lokaprófi.

 • 6 Próftökuréttur

  Nemendur skulu hafa náð 5 í veginni meðaleinkunn verkefna og hafa virt mætingaskyldu til þess að öðlast próftökurétt. Ef nemandi nær ekki tilskyldri lágmarkseinkunn eða mætingu þá telst hann fallinn á verkefnaeinkunn og telst því fallinn í áfanganum. Nemandi á kost á því að sitja áfangann aftur hjá Keili hvort heldur sem er í staðnámi eða fjarnámi. 

  Lágmarksmæting er 70% í hvern áfanga en 80% í heild. Ef mæting fer undir það missa nemendur próftökurétt. Þá er 80% mæting í símatsáfanga. Ef um langtímaveikindi er að ræða er nemendum bent á að tala við námsráðgjafa, en í þeim tilfellum má mæting aldrei fara undir 60%. Í alla verklega tíma í raungreinum er 100% mætingaskylda. Vottorð geta einungis gilt fyrir einn verklegan tíma í áfanga, nemendur skulu í slíkum tilfellum hafa samband við kennara.

  Lokaeinkunn áfangans samanstendur af prófseinkunn og verkefnaeinkunn. Nemendur þurfa að ná að lágmarki 5 úr hvorum hluta fyrir sig til þess að standast áfangann.

 • 7 Starfsfólk

  Hægt er að nálgast upplýsingar um starfsfólk Háskólabrú Keilis 2016 - 2017 hérna

  Starfsfólk skrifstofu og kennslusviðs Keilis:

  Agnar Guðmundsson Tölvudeild agnar@keilir.net
  Anna María Sigurðardóttir Kennslusvið annamaria@keilir.net
  Fjóla Þórdís Jónsdóttir Kennslusvið fjola@keilir.net 
  Gísli Torfason Tölvudeild/kennslusvið gisli@keilir.net
  Sigríður Georgsdóttir Þjónustufulltrúi sigridurg@keilir.net
  Skúli Freyr Brynjólfsson Náms- og starfsráðgjafi skuli.b@keilir.net
  Venný Sigurðardóttir Þjónustufulltrúi venny@keilir.net
  Þóra Kristín Snjólfsdóttir Náms- og starfsráðgjafi thora@keilir.net