Handbók nemenda - Tæknifræði

Birt með fyrirvara um breytingar. Smelltu á viðeigandi yfirflokka til að nálgast nánari upplýsingar. Almennar upplýsingar um húsnæðismál, skólagjöld, siðareglur, þjónustu og tölvumál má nálgast í Handbók nemenda - Almennur hluti.

 • 1 Námið

  Keilir býður í samstarfi við Háskóla Íslands upp á fjölfaglegt og hagnýtt tæknifræðinám á háskólastigi sem veitir útskrifuðum nemum rétt til að sækja um lögverndaða starfsheitið tæknifræðingur eftir þriggja ára nám. Nemendur geta valið um mekatróník hátæknifræði eða iðntæknifræði. Námið hentar vel þeim sem hafa verkvit og áhuga á tæknilegum lausnum og nýsköpun.

  Miklir atvinnumöguleikar eru í tækni- og hugverkagreinum og er tæknifræðinámið hjá Keili eitt hagkvæmasta tæknifræðinám sem völ er á. Námið er að lágmarki 210 ECTS einingar og er kennt á þremur árum. Það er sveigjanlegt og þannig úr garði gert að nemendur geti unnið með skólanum á seinni stigum námsins. Tæknifræðinám hjá Keili undirbýr nemendur vel fyrir krefjandi og fjölbreyttan vinnumarkað.

  Þar sem námið fellur undir Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands (rafmagns- og tölvuverkfræðideild) gilda reglur þess sviðs almennt yfir nemendur í tæknifræðinámi Keilis. Hægt er að kynna sér reglurnar á www.alfinnur.hi.is. Hér á eftir verður hins vegar farið yfir reglur og atriði sem eru frábrugðin reglum og starfsemi Háskóla Íslands. 

  Nánari upplýsingar um grunnnám í Háskóla Íslands

 • 2 Inntökuskilyrði

  Til að umsækjendur geti hafið tæknifræðinám í Keili er æskilegt að þeir hafi lokið stúdentsprófi eða sambærilegu námi. Sambærilegt stúdentsprófi teljast:

  • 4. stigs próf frá vélstjórnarbraut Tækniskólans (áður Vélskóli Íslands);
  • Próf frá frumgreinasviði Háskólans í Reykjavík (áður Tækniháskóli Íslands/Tækniskóli Íslands); eða
  • Lokapróf frá Verk-og raunvísindadeild Háskólabrúar Keilis.

  Kennslan í tæknifræði miðast við að nemendur hafi tekið að minnsta kosti 24 einingar í stærðfræði og 30 einingar í náttúrufræðigreinum (þar af a.m.k. 6 einingar í eðlisfræði) í framhaldsskóla. Þeir sem ekki uppfylla þessi skilyrði skulu fara í stöðumat í stærðfræði.

 • 3 Stöðumat í stærðfræði

  Markmið stöðumatsins er að gefa umsækjanda tækifæri til að fá yfirsýn á eigin þekkingu í stærðfræði og er stöðumatið notað til að leiðbeina nemendum og styðja þá við námsbyrjun. Spurningarnar meta hvort skilningur á grundvallarhugtökum sé til staðar, því er stöðumatið ekki próf eða aðgangspróf fyrir tæknifræðinámið í Keili heldur einungis umsækjanda til gagns svo hann geti metið hvaða námsefni þarf að rifja upp t.d. ef talsverður tími hefur liðið frá námi.

  Erfiðleikastig spurninga miðast við að nemendur þekki hugtök og geti beitt þeim á heppileg vandmál. Fjöldi spurninga er talsverður en það er vegna þess að verið er að skoða hvar almenn þekking liggur hjá einstaklingnum.

  Matið er byggt á krossaspurningum og er innihald þess dreift og fellur það í marga flokka og hluta. Hver hluti verður ekki meira en 10 blaðsíður og skal umsækjandi spreyta sig á sem flestum hlutum á tilsettum matstíma.

 • 4 Uppsetning námsins

  Uppsetning námsins í tæknifræðideild Keilis er frábrugðin hefðbundnu fyrirkomulagi hér á landi að því leyti að námsárinu er skipt upp í þrjár annir, tíu vikur hver önn. Að auki eru tvær þriggja vikna lotur á námsárinu.

  Námið dreifist því á fleiri vikur á árinu og þar af leiðandi verður námsálagið jafnara. Með þessu móti ná nemendur að ljúka 80 ECTS einingum á ári í stað 60 ECTS eininga eins og almennt tíðkast. Nemendur ljúka því náminu á þremur árum í stað þremur og hálfu og eiga kost á því að vera á námslánum allt árið.

 • 5 Uppsetning námskeiða

  Flest námskeið koma í pörum og skiptast í fyrirlestrarhluta og verklegan hluta. Í þeim tilvikum gildir fyrirlestrarhlutinn 4 ECTS einingar en verklegi hlutinn 1 ECTS einingu. Þeir nemendur sem ekki standast verklega hlutann og/eða skila ekki öllum verkefnum (misjafnt eftir námskeiðum) fá fall fyrir hann og skulu taka hann upp næst þegar námskeiðið er kennt. Lokaeinkunn námskeiðs mun þó ekki hækka við upptöku verklega hlutans heldur breytist fall í staðið.

  Þetta fyrirkomulag gerir það að verkum að nemendur sem af einhverjum ástæðum ná ekki að klára verkefnin sín eiga kost á því að ljúka fyrirlestrarhluta námskeiðs og fá einingar fyrir hann í stað þess að falla í öllu námskeiðinu og fá engar einingar.

 • 6 Kennslan

  Til að ná árangri er lögð áhersla á að taka við áhugasömum nemendum, kenna þeim grunnatriði tæknifræðinnar og tryggja skilning þeirra á námsefninu. Þetta næst með:

  • Verkefnum sem eru byggð á raunverulegum viðfangsefnum.
  • Verklegum æfingum til að staðfesta fræðin.
  • Verklegum æfingum til að leyfa nemendum að prófa nýjar hugmyndir.
  • Krefjandi keppnum á milli nemenda.
  • Fyrsta flokks aðstöðu.

  Menntun er hugarleikfimi, úrvinnsla upplýsinga og þrautseigja, ekki einföld viðtaka upplýsinga. Nemendur verða sjálfir að hafa áhuga á og bera sig eftir þeirri hagnýtu þekkingu og reynslu sem þeim býðst í náminu hjá tæknifræðideild Keilis.

 • 7 Verkefnavinna

  • 7.1 Heima- og tímaverkefni

   Margvísleg verkefni eru lögð fyrir í hverju fagi. Leitast er við að hafa fjölbreytni að leiðarljósi. Fjöldi verkefna á önninni er mismunandi eftir fögum og kemur fram á kennsluáætlun.

   Í verklegum hluta námskeiðs eru gjarnan lögð fyrir verkefni sem dýpka námsefni dagsins, lagðar fyrir tímaæfingar og nemendur geta spurt spurninga. Einnig eru lögð fyrir heimaverkefni.

   Heima- og tímaverkefni í skólanum skiptast í:

   • Einstaklingsverkefni.
   • Par- eða hópverkefni þar sem allir skila sameiginlegri lausn.
   • Par- eða hópverkefni þar sem hver nemandi skilar sér lausn.

   Hópavinna byggist á samskiptum og dreifingu álags. Hver og einn nemandi þarf þó að geta gert grein fyrir öllum þáttum verkefnisins. Nemendur sem taka ekki þátt í hópavinnu fá 0 fyrir verkefnið og geta fallið í verklegum hluta námskeiðs. Ef samstarfsvandamál koma upp skulu nemendur strax hafa samband við kennara.

  • 7.2 Skilafrestur á verkefnum

   Skilafrestur á verkefnum er breytilegur eftir námskeiðum og kemur fram á kennsluáætlunum. Almenna reglan er hins vegar sú að 1 er dreginn frá einkunn, fyrir hvern byrjaðan sólarhring frá skiladegi. Ekki er tekið við verkefnum eftir þrjá daga frá skiladegi. Dæmi: Ef skil eru á mánudegi, þá er ekki hægt að skila verkefni eftir fimmtudag. Á þetta við um öll námskeið.

  • 7.3 Verkefnaeinkunnir

   Fyrir ákveðin verkefni í námskeiðum er gefin verkefnaeinkunn sem er vegið meðaltal verkefnanna. Kennari gefur upp í upphafi námskeiðs hvernig fyrirkomulag verkefnaeinkunna er.

  • 7.4 Ritstuldur og óheimil samvinna

   Mikilvægt er að nemendur geri sér grein fyrir því að verkefni og ritgerðir skulu vera í samræmi við fyrirmæli kennara og nemendum er í alla staði óheimilt að nýta sér hugverk annarra í ritgerðum og/eða verkefnum, nema heimilda sé getið í samræmi við viðurkennd, fræðileg vinnubrögð.

 • 8 Próf

  • 8.1 Skyndipróf

   Í fyrirlestrum og verklegum tímum getur kennari lagt fyrir nemendur skyndipróf sem er leyst sem tímaverkefni og er hluti af einkunn. Eins og alltaf þá bera nemendur sjálfir ábyrgð á námi sínu og ástundun. Nemendur sem ekki mæta í fyrirlestra og/eða verkefnatíma geta ekki ætlast til að kennari fari aftur yfir efnið sérstaklega fyrir þá eða að þeir fái að taka skyndiprófið sem þeir misstu af.

  • 8.2 Lokapróf

   Almennt gildir að skrifleg próf eru 3 klukkutímar. Sama gildir um munnleg próf og verkleg, það er kennarans að ákveða lengd prófs og með hvaða hætti hann prófar úr námsefninu. Prófafyrirkomulag skal þó liggja fyrir í upphafi námskeiðs. Prófin taka mið af hæfnisviðmiðum úr námskrá og kennsluáætlun námskeiða. Próf eru almennt haldin á sal, yfirsetufólk er til staðar, og er gert ráð fyrir að hægt sé að ná í kennara og prófstjóra á meðan próftíma stendur.

  • 8.3 Sjúkrapróf

   Ef nemandi forfallast á prófi þarf hann að tilkynna það á skrifstofu skólans fyrir próftíma og skila vottorði innan þriggja daga frá dagsetningu prófs til skrifstofu skólans. Ef nemandi gerir bæði öðlast hann rétt til að taka sjúkrapróf – annars fær hann 0 fyrir prófið og verður að þreyta upptökupróf.

  • 8.4 Upptökupróf

   Nemandi sem ekki nær lágmarkseinkunninni 5 á lokaprófi á rétt á að fara í upptökupróf. Nemandi sem nær lokaprófi á ekki kost á að taka upptökupróf. Gjald er tekið fyrir upptökupróf samkvæmt gjaldskrá hverju sinni. Gjaldskránna má finna á heimasíðu Keilis.

  • 8.5 Lokaeinkunnir

   Lokaeinkunnir í námskeiðum eru breytilegar að uppbyggingu og á hver kennari að gefa upp hvaða fyrirkomulag hann styðst við. Í mörgum námskeiðum eru haldin lokapróf sem eru ýmist skrifleg, munnleg eða verkleg. Lengd prófa fer eftir efni og aðstæðum hverju sinni og er það kennari sem tekur ákvörðun um tímalengd prófs. Nemendur verða að ná lágmarkseinkuninni 5 til að ná lokaprófi. Bæði lokaeinkunn og prófseinkunn verða að ná lágmarki.

  • 8.6 Reglur um próftöku

   Í hverju námskeiði skal kennari tilkynna nemendum um fyrirkomulag lokaprófs, þ.e. hvort þeir heimili notkun tækja, gagna og hug- eða tölvubúnaðar í prófinu. Ef nemandi brýtur reglur um próftöku eða hefur rangt við fær hann einkunnina 0 og skal mögulega beittur viðurlögum.

   Ef nemandi mætir ekki í próf eða gengur út úr prófi fær hann einkunnina 0 og þarf að fara í upptökupróf til að ljúka námskeiðinu.

   Prófreglur Keilis má finna undir Handbók nemenda - Almennur hluti

 • 9 Ugla – Kennslukerfi Háskóla Íslands

  Leitast er við að hafa öll námsgögn og samskipti milli kennara og nemenda í kennslu- og samskiptaforritinu Uglu. Mikilvægt er að nemendur fari reglulega inn á Uglu til að fylgjast með hverju námskeiði fyrir sig. Þá hafa nemendur tvö tölvupósthólf, bæði í gegnum Uglu og Keili, og er brýnt að nemendur fylgist með tölvupósti í þeim daglega, þar sem allar upplýsingar frá skólanum og milli nemenda eru sendar í tölvupósti.

 • 10 Tölvusamskipti

  Eins og fram hefur komið er mikil áhersla á tölvunotkun í Keili þar sem námsgögn og samskipti fara mikið til fram í gegnum tölvur. Allir starfsmenn og nemendur Keilis eru beðnir um að hafa í huga að um tölvusamskipti gilda almennar kurteisisreglur.

 • 11 Kennsluaðstaða

  • 11.1 Almenn kennsluaðstaða

   Tæknifræðinámið fer að mestu leiti fram í aðalbyggingu Keilis á Grænásbraut 910 á Ásbrú í Reykjanesbæ. Byggingin hýsir flestar kennslustofur, rannsóknaraðstöðu, stoðþjónustu og skrifstofur. Þar er einnig að finna bókasafn, lesrými, hópvinnuherbergi, kaffistofur og veitingasölu, auk þess sem viðburðir og uppákomur eru reglulega á dagskrá. Byggingin er opin nemendum frá morgni til kvölds.

  • 11.2 Verkleg aðstaða

   Verklegar æfingar og rannsóknir nemenda fara fram í fyrsta flokks tilrauna- og rannsóknaraðstöðu í byggingu skólans. Verkleg aðstaða og rannsóknarstofur eru að mestu leyti staðsettar í sömu byggingu og almenn kennsla í tæknifræðináminu. Markmið rannsóknaraðstöðunnar er að halda utan um þjónustu, samskipti og þekkingarmiðlun, ásamt því að stuðla að gagnvirkum samskiptum og verkefnum milli aðila í orkurannsóknum, atvinnulífi og menntun. Auk þess er verklega aðstaðan notuð í samstarfsverkefnum milli innlendra og erlendra menntastofnanna og rannóknaraðila, ásamt því að styðja við sprotafyrirtæki á Ásbrú. Nú þegar hafa verið settar upp fjórar sérhæfðar rannsóknarstofur í Orku- og tækniskóla Keilis:

   1. Efnafræðistofa
   2. Mekatróníkstofa (Rafmagnsfræði / Tölvutæknifræði / Iðustýringar)
   3. Varma- og straumfræðistofa
   4. Smiðja
     
 • 12 Fyrirvari um breytingar

  Vakin er athygli á því að allt sem birt er svo sem varðandi skipulag og annað er birt með fyrirvara um breytingar og forstöðumaður deildarinnar áskilur sér rétt til að breyta dagsetningum og öðru sem birst hefur og við kemur náminu.

 • 13 Starfsfólk

  Upplýsingar um starfsfólk tæknifræðináms Keilis má nálgast hér

  Starfsfólk skrifstofu og menntasviðs Keilis:

  Agnar Guðmundsson Tölvudeild agnar@keilir.net
  Gísli Torfason Tölvudeild gisli@keilir.net
  Anna María Sigurðardóttir Menntasvið annamaria@keilir.net
  Fjóla Þórdís Jónsdóttir Menntasvið fjola@keilir.net
  Sigrún Svafa Ólafsdóttir Menntasvið / Kennsluráðgjafi sigrunsvafa@keilir.net
  Þóra Kristín Snjólfsdóttir Náms- og starfsráðgjafi thora@keilir.net
  Skúli Freyr Brynjólfsson Náms- og starfsráðgjafi skuli.b@keilir.net
  Sigríður Georgsdóttir Þjónustufulltrúi
  sirry@keilir.net
  Venný Sigurðardóttir Þjónustufulltrúi venny@keilir.net