Nemendur í Háaleitisskóla fá vísinda- og tæknikennslu hjá Keili

Nú þegar 10 ár eru liðin frá því að herstöðinni á Keflavíkurflugvelli var lokað og Kadeco, Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar stofnað til að byggja upp samfélag í yfirgefinni herstöð, sem fékk nafnið Ásbrú, er gaman að vekja athygli á samstarfi skólastiga á Ásbrú. Keilir, miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs, hefur verið mikil lyftistöng fyrir fræðasamfélagið á svæðinu og í raun útgangspunkturinn í uppbyggingu Ásbrúar. Hér er grein eftir Önnu Sigríði Guðmundsdóttur skólastjóra Háaleitisskóla og Hjálmar Árnason framkvæmdastjóra Keilis um samstarf skólanna tveggja.

Gaman milli skólastiga

Með breyttum áherslum og þörfum í nútímasamfélagi þarf skólinn að aðlaga sig að þeim kröfum og finna leiðir til að uppfylla þau skilyrði sem bæði atvinnulífið og Aðalnámskrá grunnskóla kallar á. Þessar nýju áherslur kalla á aðra nálgun í raungreinum í skólanum og þar hefst samstarf Háaleitisskóla og Keilis á Ásbrú í Reykjanesbæ.

Þekkingarþorpið á Ásbrú

Á Ásbrú vex hratt nýtt þekkingarþorp sem leysir af hólmi herstöð sem þar var í áratugi.  Á svæðinu búa nú yfir 2000 manns og fjöldi fyrirtækja er orðin yfir 100. Tveir leikskólar eru á Ásbrú (Heilsuleikskólinn Háaleiti og Völlur sem rekinn er af Hjallastefnunni). Þá er þar grunnskóli, Háaleitisskóli, með nemendur upp í 8. bekk en til stendur að taka einnig upp 9. og 10. bekk. Einnig er á Ásbrú Keilir sem bæði kennir á framhaldsskólastigi og háskólastigi.

Háaleitisskóli og Keilir

Háaleitisskóli er enn í mótun. Stjórnendur hafa mikinn hug á að nýta sér aðstöðuna á Ásbrú. Í því skyni var leitað til Keilis um samstarf. Niðurstaða þess varð tilraun sem hófst í vor og mun líklegast halda áfram. Fyrsta skrefið er að Keilir tekur að sér að sinna kennslu fyrir nemendur í 8. bekk í annars vegar nýsköpun og tækni og hins vegar í flugtengdri starfssemi.

Tæta og rífa og byggja

Á vegum Keilis er starfrækt stafræn smiðja, Hakkit, sem nú hefur verið felld undir FabLab smiðju Keilis. Þar gefst nemendum færi á að kynnast undraheimum tækni og nýsköpunar. Þeir fá að rífa í sundur tölvur og skyldar græjur, smíða og setja saman fjarstýrða bíla, læra einfalda forritun og sýna í verki, kíkja í rafmagnstæki o.s.frv. Markmið með þessu er að vekja forvitni og áhuga nemenda á þeim tækjum og tólum sem þau sjá í daglegu lífi ásamt því að opna augu fyrir möguleikum með þeim. Kennslan/leikurinn fer fram í áðurnefndri smiðju Keilis og kennarar eru tæknifræðinemar Keilis. Þannig er nýtt bæði aðstaða á svæðinu og mannauður.

Allt um flugið

Eftir áramót er ætlunin að leggja áherslu á flugtengdar greinar. Nemendurnir fá að kynnast fjölbreytileika flugsins með heimsóknum í flugverkstæði, flugturn, flugafgreiðslu, vinna létt og skemmtileg verkefni í flugvirkjun, læra um flugveðurfræði, kynnast því að fljúga í flughermi og jafnvel að fara fyrstu tímana í „alvöru“ flugvél. Markmiðið er hið sama: Að efla áhuga nemenda grunnskóla á tæknigreinum og atvinnulífi. Aðstaðan er til staðar hjá Flugakademíu Keilis og hinum fjölbreyttu fyrirtækjum á Ásbrú er tengjast flugi.

Raungreinabúðir fyrir grunnskóla?

Verkefnið hófst sl. haust og er óhætt að segja að það fari vel af stað. Nemendur eru spenntir og sýna verkefnunum mikinn áhuga. Kennarar gæta þess að hafa verkefnin fjölbreytt og aðlaðandi fyrir nemendur. Meðfylgjandi myndir segja meira en mörg orð. Þegar eru fleiri grunnskólar búnir að hafa samband við Keili um að komast inn í sambærilegt samstarf. Keilisfólk stefnir að því að bjóða fleiri grunnskólum að taka þátt í þessu samstarfi.
Atvinnulíf kallar eftir tæknimenntuðu fólki. Nemendum finnst gaman að vinna raunhæf verkefni, „Learning by doing“. Mikilvægt er að efla og viðhalda forvitni nemenda okkar. Það er trú okkar að með samstarfi á borð við það, er hér hefur verið reifað, megi stíga jákvæð skref í þá átt.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, skólastjóri Háaleitisskóla.
Hjálmar Árnason, framkvæmdastjóri Keilis.