Mun helmingur starfa hverfa? Er skólakerfið viðbúið?

Að undanförnu hafa birst víða greinar þar sem spáð er í þau störf sem verða til á næstu áratugum. Sumir ganga svo langt að halda því fram að allt að helmingur þeirra starfa, sem nú eru til, muni hverfa vegna tæknivæðingar. Þegar megi sjá merki þessarar þróunar. Og hér er ekki bara átt við framleiðslustörf heldur öll svið atvinnulífs. Við getum litið á íslenskt atvinnulíf og sjáum þá hvernig aukin sjálfvirkni hefur leyst mannshöndina af hólmi. Skýrasta dæmið er ugglaust sjávarútvegurinn, bæði á sjó og í landi. „Kvennabaninn“ í rækjuvinnslu var sagður koma í stað 15 „kvenna“ sem störfuðu við að pilla rækju. Saltfisksvinnsla, loðnuvinnsla og þannig mætti áfram telja – tæknin er orðin stórbrotin. Fyrir ekki ógurlega mörgum árum var til stétt manna sem nefndust setjarar, filmuframköllun var sterk atvinnugrein, pökkunardeildir víða hafa verið leystar af hólmi með vélmennum, heyskapur er ekki lengur rómantískur og mannfrekur, siglingafræðingar eru ekki lengur hluti flugáhafnar og þannig má áfram telja. Hvað gerist næst?

Þróunin verður ekki stöðvuð

Tæknivæðing hefur leitt til aukins hraða á öllum sviðum. Þar sem mannshönd og hugur þurfa sinn tíma til hugsunar og verka leysir tölva á örskots hraða, jafnvel með meiri nákvæmni og færri „slysum“ en mannfólkið. Forritun og tölvuvæðing er grunnurinn. Af þeim sprettur sjálfvirkni og þau leiða okkur inn í hinn ótæmandi heim upplýsinga á veraldarvefnum. Sé þróun síðustu 20 ára skoðuð verður maður eiginlega klumsa. Þvílík bylting á flestum sviðum. Og því er spáð að á næstu 20 árum muni hraðinn vaxa línulega, þ.e. verða enn meiri og við sjá enn stórstígari framfarir. Vélmenni eru sögð munu leysa flugmenn af hólmi, bílar aka án bílstjóra, tölvur lesa reikninga (og leysa endurskoðendur af hólmi), jafnvel í læknisfræði er því spáð að m.a. nanotækni muni kollvarpa störfum lækna. Margt bendir sem sagt til þess að á allra næstu árum munum við sjá meiri umbreytingar í atvinnuháttum en nokkru sinni í mannkynssögunni. Þetta feli m.a. í sér að þau börn, sem eru u.þ.b. að hefja skólagöngu núna, séu að læra undir störf sem ekki eru til í dag. Og hvernig er skólakerfið í stakk búið til að mæta gjörbreyttu atvinnulífi framtíðar? Óbreytt ástand gæti leitt yfir okkur meira atvinnuleysi en okkur órar fyrir. 

Þurfum uppstokkun

Skólakerfi eru afskaplega íhaldssöm fyrirbrigði. Segja má að rekstur þeirra sé gjarnan gærdagsins. Við sjáum það birtast á flestum sviðum. Má þar nefna hina gömlu kennsluhætti sem enn eru ráðandi, ofurtrú á hefðbundin próf og gamaldags, afmörkun kennslugreina hverja frá annarri, minnisatriði í stað skilnings o.s.frv. Við getum spurt okkur að því hvað nýr starfsmaður, sem á að starfa næstu 20 árin í fyrirtæki á samkeppnismarkaði, þurfa að geta. Viljum við að hann geti lokað sig af og slegið í gegn á krossaprófi í ensku, stærðfræði, íslensku og dönsku? Jú, væri gaman fyrir hann að slá um sig á kaffistofunni. Eða viljum við starfsmann sem er góður í samskiptum, kann að leita sér upplýsinga, á létt með að laga sig að breyttum aðstæðum, getur sýnt frumkvæði og er skapandi – svo einhverjir þættir séu nefndir? Býst við að flestir geti tekið undir þessa þætti og bætt öðrum við – allir nema skólakerfið. Af innbyggðri íhaldssemi má segja að skólakerfið í heild traðki á þessum mennsku og mikilvægum þáttum. Líklega vegna ofurtrúar sinnar á því sem var og hefur alltaf verið. Víða um heim fer nú fram umræða um mikilvægi þess að umbylta skólakerfinu. Finnar hafa riðið á vaðið, nú sem fyrr. Þær þjóðir sem ekki breyta inntaki og skipulagi menntakerfis síns á allra næstu misserum munu einfaldlega dragast aftur úr öðrum þjóðum. Til þess þarf bæði djörfung og vilja sem kerfið sjálft í allri sinni dýrð hefur ekki. Líklega er þetta eitt af mikilvægari verkefnum samtímans.

Hjálmar Árnason,
framkvæmdastjóri Keilis.