Menntaskólinn á Ásbrú

Verkefnastjórar MÁS
Verkefnastjórar MÁS

Keilir stefnir á að bjóða upp á þriggja ára stúdentsnám frá og með næsta hausti. Skólinn hefur fengið tilskilin leyfi frá menntamálaráðuneytinu og er nú vinna hafin við að koma skólanum á fót en hann mun bera nafnið Menntaskólinn á Ásbrú (MÁS). Hjördís Alda Hreiðarsdóttir og Þorsteinn Surmeli, íslenskukennarar við Háskólabrú Keilis, munu hafa umsjón með námsbrautinni sem þau segja að muni leggja áherslu á nýjustu aðferðir í námi og kennslu og undirbúa nemendur fyrir störf framtíðarinnar. 

Óheðfbundinn skóli

MÁS verður að mörgu leyti frábrugðinn öðrum framhaldsskólum. Skólinn mun leggja áherslu á vendinám (e. flipped classroom) sem hefur verið stór hluti af starfi Keilis á undanförnum árum. Í skólanum verða hvorki hefðbundnar kennslustofur né hefðbundin stundatafla heldur munu nemendur stunda sína vinnu í skólanum þar sem kennarar verða til staðar og leiðbeina þeim.  

Skóladagurinn í MÁS mun ekki hefjast fyrr en klukkan 9 á morgnana enda eru áhrif myrkurs á sálarlíf Íslendinga vel þekkt. Dagleg hreyfing verður hluti af skólastarfinu enda mun MÁS leggja áherslu á bæði andlega og líkamlega vellíðan nemenda og starfsfólks.

Með opnun Menntaskólans á Ásbrú bætist enn í þá fjölbreyttu menntaflóru sem fyrir er hjá Keili en þar er meðal annars hægt að læra einka- og styrktarþjálfun, leiðsögunám í ævintýramennsku á háskólastigi, tæknifræði á vegum Háskóla Íslands, einka- og atvinnuflugmannsnám og flugvirkjun. Þá hafa um 1.400 manns lokið Háskólabrú sem er aðfaranám að háskólanámi.

Upplýsingar um námið

Nánari upplýsingar um fyrirkomulag námsins verða birtar á heimasíðu Keilis fljótlega. Ef þú getur ekki beðið eftir því að vita meira um námið, þá getur þú skráð nafnið þitt og netfang á póstlistann okkar og við sendum þér upplýsingar um leið og þær liggja fyrir. Þú getur einnig haft samband við Keili í síma 578 4000 eða á keilir@keilir.net.