Fjölmennasta útskriftarár Keilis frá upphafi

Keilir útskrifaði 163 nemendur þann 10. júní 2016
Keilir útskrifaði 163 nemendur þann 10. júní 2016
Keilir útskrifaði 163 nemendur við hátíðlega athöfn á Ásbrú föstudaginn 10. júní. Við athöfnina brautskráðust nemendur úr Háskólabrú, Íþróttaakademíu og Flugakademíu, auk nemenda í leiðsögunámi í ævintýraferðamennsku á vegum Thompson Rivers University og Keilis. Með útskriftinni hafa 267 nemendur lokið námi frá skólum Keilis á árinu og stefnir í að þeir verði orðnir rúmlega 300 talsins í sumar, þar sem enn á eftir að brautskrá nemendur af verk- og raungreinadeild Háskólabrúar Keilis, auk nemenda í tæknifræðinámi Háskóla Íslands og Keilis. Aldrei hafa jafn margir einstaklingar lokið námi í Keili á einu ári síðan skólinn hóf starfsemi sína árið 2007.
 
Háskólabrú Keilis útskrifaði í allt 60 nemendur úr þremur deildum, þar af sjö fjarnámsnemendur. Soffía Waag Árnadóttir, forstöðumaður Háskólabrúar, flutti ávarp. Dúx var Erna Björt Árnadóttir með 9,5 í meðaleinkunn. Fékk hún bók frá Íslandsbanka og lesbretti frá Keili sem viðurkenningu fyrir námsárangur. Rósa Björk Ágústsdóttir nemandi á félagsvísinda- og lagadeild flutti ræðu útskriftarnema. Með útskriftinni hafa samtals 1.403 nemendur útskrifast úr Háskólabrú Keilis og hafa lang flestir þeirra haldið áfram í háskólanám bæði hérlendis og erlendis.
 
Flugakademía Keilis útskrifaði 27 atvinnuflugmannsnemendur. Rúnar Árnason, forstöðumaður Flugakademíunnar, flutti ávarp. Dúx var Kolbeinn Ísak Hilmarsson með 9,77 í meðaleinkunn, en það er næst hæsta einkunn úr atvinnuflugmannsnámi Keilis frá upphafi. Kolbeinn fékk gjafabréf frá WOWair og bók frá Icelandair. Ræðu útskriftarnema flutti Axel C.Thimell.
 
58 nemendur útskrifuðust sem ÍAK þjálfarar úr Íþróttaakademíu Keilis, 50 einkaþjálfarar og átta styrktarþjálfarar. Arnar Hafsteinsson, forstöðumaður Íþróttaakademíu Keilis flutti ávarp. Tinna Mark Antonsdóttir fékk viðurkenningu fyrir bestan námsárangur í ÍAK einkaþjálfaranámi með 9,8 í meðaleinkunn og Arna Ösp Gunnarsdóttir fyrir ÍAK styrktarþjálfaranám með 9,25 í meðaleinkunn. Fengu þær gjafabréf í Nike verslunina frá Sporthúsinu í Reykjanesbæ. Þá brautskráðust 18 nemendur úr háskólanámi Thompson Rivers University (TRU) og Keilis í leiðsögunámi í ævintýraferðamennsku. Ross Cloutier yfirmaður námsins hjá TRU flutti ávarp og Fífa Lísa Óskarsdóttir flutti ræðu útskriftarnema. Dúx var Unnur Ósk Unnsteinsdóttir með 8,56 í meðaleinkunn og fékk hún gjöf frá GG sjósport fyrir námsárangur.
 
Í ræðu sinni velti Hjálmar Árnason framkvæmdastjóri Keilis upp spurningunni um það hvað skipti máli í lífinu og nefndi sérstaklega virðingu fyrir orðum, náttúru, samferðarfólki og sjálfum sér. Þá hvatti hann nemendur til að halda lífi í gleðinni. Samtals hafa nú 2.639 nemendur lokið námi úr öllum deildum Keilis á níu árum.