Phantom F4 þota við Keili

Flugbækistöð Bandaríkjahers í Keflavík var reist á árum heimstyrjaldarinnar síðari og gegndi mikilvægu hlutverki í vörnum landsins ásamt flugsamgöngum og ferjuflugi bandamanna yfir Atlantshaf. Eftir brottför hersins árið 1947 bar flugvöllurinn nafnið Keflavíkurflugvöllur og gegndi mikilvægu hlutverki í ört vaxandi flugsamgöngum yfir Atlantshaf. Með aukinni styrjaldarhættu gerðu Ísland og Bandaríkin með sér varnarsamning á grundvelli Norður-Atlantshafsbandalagsins – NATO – og sneri Bandaríkjaher aftur til landsins árið 1951.

Eftir lok Kalda stríðsins fækkaði liðsmönnum bandaríska varnarliðsins jafnt og þétt og var Keflavíkurstöðinni lokað 30. september 2006. Þegar mest var töldu hermenn, starfslið hersins og fjölskyldur þeirra um 6.000 manns. Þá unnu nærri tvö þúsund Íslendingar við rekstur og þjónustu á svæðinu, flestir af Suðurnesjunum.

Við brotthvarf hersins stóð eftir stórt landsvæði og mikið af byggingum sem nýta þurfti á hugvitsamlegan hátt. Strax í upphafi var ráðist í endurskipulagningu svæðisins með menntun og frumkvöðlastarfsemi að leiðarljósi og sterkri tengingu við atvinnulífið. Verkefnið hefur verið kallað stærsta endurvinnsluverkefni Íslandssögunnar og nú hefur skapast þar blómlegt og framsækið samfélag nýsköpunar, vísinda og fræða.

Þessi orrustuþota af gerðinni F-4E Phantom II ber merki 57. orrustuflugsveitar bandaríska flughersins, „Svörtu riddaranna í Keflavík“ til merkis um árangursríkt hlutverk flugbækistöðvarinnar og annarra liðsveita bandaríska varnarliðsins í kalda stríðinu. Flugvirkjanemar Flugakademíu Keilis sjá um viðhald hennar.


Tengt efni