Sérúrræði

Keilir býður nemendum með sértæka námsörðugleika velkomna til náms í skólanum. Skólinn leggur áherslu á að veita nemendum sérstaka þjónustu til að ná árangri í námi. Helstu úrræði sem i boði eru: 

  • Stuðningsviðtöl við námsráðgjafa
  • Lengdur próftími
  • Breytt letur / stækkað letur
  • Talgervill
  • Próftaka á tölvu
  • Meira næði, sérstofa fyrir nemendur með lengri próftíma
Hafi nemandi grun um sértæka námsörðugleika skal viðkomandi hafa samband við náms- og starfsráðgjafa sem munu hafa milligöngu um greiningu sé þess óskað.
 

Lesblinda

Í stuttu máli má segja að dyslexía eða lesröskun sé heiti yfir námsörðugleika sem koma fram þegar unnið er með talað eða ritað mál. Vandamál geta komið fram í lestri, stafsetningu, tjáningu eða hlustun. Dyslexía er ekki sjúkdómur. Þeir sem greinast með dyslexíu eru yfirleitt hæfileikaríkir einstaklingar sem læra á annan hátt en almennt gerist. Greind þeirra er ekki vandamálið. Það er mismunur á milli námshæfileika þeirra og námsárangurs sem ekki á sér augljósar skýringar. 
 
Orsakir dyslexíu er að finna í uppbyggingu og starfsemi heilans. Hver einstaklingur er sérstakur, sérhver á sér sínar sterku og veiku hliðar. Þessir nemendur sýna oft sérstaka hæfileika á sviðum sem krefjast samþættingar sjónskynjunar, rúmskynjunar og hreyfinga. Margir með dyslexíu hafa einstaka hæfileika á sviðum eins og í listum, íþróttum, húsagerðarlist, rafeindatækni og verkfræði. 
 
Það sem er þeim sameiginlegt er að eiga í vandræðum með tungumálið. Það merkir að þeir sem greinast með dyslexíu eiga í erfiðleikum með að umskrá málið yfir í hugsun (þegar verið er að hlusta eða lesa) eða hugsun yfir í tungumálið (eins og við stafsetningu, ritun og munnlega tjáningu). ©Elín Vilhelmsdóttir