Prófaundirbúningur

Próftímabil einkennast af miklu álagi sem nemendur valda misvel. Bætt vinnubrögð og árangursrík námstækni geta dregið úr álagi í námi og á próftímabilum og komið í veg fyrir streitu og kvíða. Mjög mikilvægt er að vera búin að lesa allt efnið jafnt og þétt yfir önnina, þannig að prófundirbúningurinn felist fyrst og fremst í upprifjun og skipulagsvinnu. 

 
Þú þarft að forgangsraða verkefnum og velta fyrir þér hvað þarf að leggja mesta áherslu á og hverju má sleppa. Það er nauðsynlegt að skoða kennsluáætlanir og fá upplýsingar hjá kennara um þetta. Byrjaðu svo á því að finna allar bækur, verkefni og próf sem þú þarft að nota við upprifjunina. 
 
Gerðu nákvæma áætlun um lestur og upprifjun. Hvað þú ætlar að lesa og hvenær. Ekki ætla þér of langa vinnulotu í einu. 
 
Finndu góðan stað þar sem þú getur unnið í friði. Misjafnt er hvað hentar hverjum og einum, en aðstæður sem ýta einna helst undir nám eru lesstofur eða sérstök vinnuherbergi. 
 
Þegar þú lest yfir námsefnið reyndu þá að draga saman í færri atriði og glósa það. Hugsaðu um efnið sem lesið er. Búðu til spurningar úr efninu í huganum um leið og þú lest yfir. 
 
Uppbyggilegt sjálfstal, hreyfing, góður svefn og hollt mataræði eru allt atriði sem skipta miklu máli á próftímabilum.