Lestrartækni

Ein óskilvirkasta aðferðin við lestur námsbóka er að lesa án þess að vinna neitt frekar með efnið. Þegar verið er að lesa yfir námsefnið er gott að hafa eftirfarandi í huga. 

Að líta yfir námsefnið (skima) 
Byrjaðu á því að „skima” námsefnið til að gera þér grein fyrir um hvað textinn fjallar. Gott er að skoða fyrirsagnir, millifyrirsagnir, samantekt, spurningar úr kaflanum, myndir, gröf og línurit. Einnig er gott að skoða þau orð sem eru undirstrikuð og feitletruð. 
 
Lestur á texta 
Þegar þið lesið, ekki lesa bara línu eftir línu. Finnið skilvirka leið sem virkar, t.d. strika undir eða yfir aðalatriðið í setningunni eða málsgreininni, þó ekki of mikið. Lesið með tilgang í huga og vekið upp spurningar úr hverjum kafla og reynið að finna svörin og skrá þau niður. Einnig er mikilvægt að gera sér grein fyrir aðalatriðum og skrifa þau niður. Þegar lestrinum er lokið þarf að spyrja sig um hvað var ég að lesa og skildi ég námsefnið?
 
Upprifjun 
Til að muna námsefnið er regluleg upprifjun nauðsynleg. Það þarf helst að lesa yfir glærur og glósur innan 24 tíma. Spurningar og samantekt úr námsefninu hjálpa til við að rifja upp aðalatriðin. Rifjaðu aftur upp innan viku, eftir mánuð og svo aftur rétt fyrir próf.