Glósutækni

Í kennslustund er mikilvægt að fylgjast vel með og reyna að taka niður góðar glósur. Þess ber þó að gæta að skrifa ekki allt of mikið niður á kostnað hlustunar og skilnings.

Svokölluð Cornell - glósuaðferð hefur nýst mörgum mjög vel. Hún felst í því að þú skiptir blaðsíðunni niður eftir endilöngu í tvo dálka. Í hægri dálkinn skrifar þú nokkuð ítarlegar glósur í eigin orðum, en í þann vinstri skrifar þú lykilorð.

  • Hafðu gott bil á milli efnisatriða, ekki skrifa báðum megin á blaðið.
  • Notaðu skammstafanir og stikkorð og ekki hafa áhyggjur af stafsetningu í glósum,
  • Notaðu skýringamyndir og tákn, teiknaðu og litaðu að vild.
  • Skrifaðu niður allt það sem kennarinn skrifar upp á töflu eða hann endurtekur og gefur til kynna að efnið sé mikilvægt.
  • Lestu yfir glósurnar eins fljótt og hægt er eftir hverja kennslustund. Settu inn lykilorð, skrifaðu niður  spurningar sem vakna, merktu við vafaatriði og áhugavert efni.
  • Lestu glósurnar vel fyrir próf. Því meira sem þú vinnur með efnið því betra. Búðu til glósur úr glósunum, það er dragðu saman aðalatriðin. Gerðu hugarkort, spurningar og fleira.