Sigurður Örn Hreindal, útskrifaðist úr mekatróník hátæknifræðinámi Háskóla Íslands og Keilis árið 2014. Í kjölfarið stofnaði hann fyrirtækið Mekano ehf. sem vinnur að þróun og framleiðslu nýrra kynslóða fjöltengja
Um er að ræða samsett einingafjöltengi fyrir allar gerðir raftækja og er mun minna í sniðum en þau fjöltengi sem þekkjast í dag. Markmiðið er að fækka snúrum, nýta pláss betur, ásamt því að hanna fjöltengi í nýstárlegu og stílhreinu útliti. Árið 2015 vann hann til verðlauna í Nordic Startup Awards sem besti íslenski nýliðinn fyrir Mekano og keppti til úrslita í keppni um Norrænu nýsköpunarverðlaunin, en þessi keppni er ein af helstu viðburðum í nýsköpun á Norðurlöndunum.
Sigurður útskrifaðist sumarið 2014 sem mekatróník hátæknifræðingur. Við útskriftina hlaut hann viðurkenningu frá Tæknifræðingafélagi Íslands fyrir lokaverkefni sitt sem gekk út á hönnun á sjálfvirkri nálavindivél fyrir netagerðarmenn. Þess má geta að hann var einnig nýverið kosinn í stjórn Tæknifræðingafélagsins þar sem hann gegnir stöðu gjaldkera, og ætlar að beita sér fyrir því að efla kynningarstarf í tæknifræði og frumkvöðlastarfsemi á Suðurnesjunum í starfsemi félagsins.
Í febrúar 2015 sendi hann viðskiptahugmynd Mekano í frumkvöðlakeppnina Gulleggið sem er haldið árlega af Klak Innovit ásamt fleiri fyrirtækjum, og hafnaði tillaga hans í öðru sæti auk þess að sópa að sér fjölda aukaverðlauna, meðal annars frá KPMG, Lögfræðistofunni Advel og Íslandsstofu. Eftir keppnina stofnaði hann fyrirtækið Mekano ehf. sem er staðsett í frumkvöðlasetrinu Eldey á Ásbrú. Þess má geta að fleiri útskrifaðir nemendur úr tæknifræðinámi HÍ og Keilis hafa aðsetur í Eldey, meðal annars Burkni Pálsson og Fida Abu Libdeh sem stofnuðu fyrirtækið GeoSilica Iceland útfrá lokaverkefnum sínum árið 2013.