Skólar

Heilsuleikskólinn Háaleiti 

Þann 2. september, tók til starfa nýr leikskóli á Ásbrú sem starfar eftir heilsustefnunni. Leikskólinn er staðsettur við Lindarbraut 624, við hliðina á grunnskólanum. Á leikskólanum er lögð áhersla á næringu, hreyfingu og listsköpun. Foreldrar sem vilja sækja um pláss á nýja leikskólanum geta gert það eins og hjá öðrum leikskólum Reykjanesbæjar inn á: www.mittreykjanes.is. Einnig er hægt að fara inn á: haaleiti.skolar.is og sækja um þar beint.


Háaleitisskóli á Ásbrú 

Í Reykjanesbæ eru reknir sex grunnskólar, þar af einn á Vallarheiði, Háaleitisskóli sem opnaði haustið 2008 og býður uppá grunnskóladeild fyrir 1. - 6. bekk og er rekinn sem útibú frá Njarðvíkurskóla. Nemendur á unglingastigi sækja nám í Njarðvíkurskóla og gengur strætó þangað alla morgna. Skólastjóri er Lára Guðmundsdóttir og aðstoðarskólastjóri Ásgerður Þorgeirsdóttir. Í skólanum eru 6 almennar kennslustofur, salur, kennaraaðstaða, aðstaða fyrir tónmenntakennslu, viðtalsherbergi o.fl.. Tónlistarskólinn verður með útibú þar sem boðið er upp á kennslu í forskóla fyrir 1. og 2. bekk ásamt hljóðfærakennslu fyrir eldri börn ef foreldrar óska þess. Boðið er upp á heitan mat í hádeginu. Nánari upplýsingar um skólanámsskrá, Frístundaskóla, skóladagatal o.fl má finna á heimasíðu Njarðvíkurskóla.

Upplýsingar um grunnskóla Reykjanesbæjar, skólastefnu o.fl. má finna hér


Frístundaskóli 

Frístundaskólar eru starfræktir í öllum grunnskólum bæjarins, frá því að skóla lýkur og til kl. 17. Hver skóli hefur til umráða miðstöð sem nefnd er Skjól en jafnframt er skólahúsnæði sem er ekki í notkun hverju sinni nýtt. Í frístundaskólunum er boðið uppá reglulegar hreyfistundir og aðstoð við heimanám. Nánari upplýsingar um frístundaskólana eru gefnar á vefsíðum skólanna. Fullt gjald í frístundaskóla er kr. 14.400,- á mánuði miðað við fullt gjald með síðdegishressingu. Tímagjald er kr. 315,- og síðdegishressing kostar kr. 105,- Veittur er 25% systkinaafsláttur vegna þriðja barns og 50% afsláttur vegna fjórða barns úr sömu fjölskyldu.


Leikskólinn Völlur 

Leikskólinn Völlur á Ásbrú tók til starfa í ágúst 2007. Á Velli eru börn á aldrinum 2-5 ára á sjö kjörnum (deildum). Leikskólinn er rekinn af Hjallastefnunni ehf. og starfar eftir námsskrá Hjallastefnunnar. Miklar endurbætur voru unnar á húsnæði skólans og allur búnaður endurnýjaður til að hann stæði jafnfætis öðrum nýjum leikskólum í Reykjanesbæ.

Líkt og hjá öðrum leikskólum sem starfa eftir námsskrá Hjallastefnunnar er starfið kynjaskipt. Stúlkur og drengir eyða stærstum hluta dagsins sitt í hvoru lagi á sínum kjarna en daglega hittast kynin og æfa samskipti sín á milli. Í stað leikfanga er stuðst við opinn efnivið á borð við heimagerðan leir, trékubba, dýnur og púða. Lögð er áhersla á að kenna jákvæðan aga sem stuðlar að öryggi og festu í starfinu ásamt því að gefa rósemd og frið sem er mikilvægt að einkenni leikskólastarf.

Börn og starfsfólk notar skólabúninga sem styrkja liðsandann og dregur úr samkeppni milli barnanna. Reynslan hefur reynslan leitt í ljós að langflestir foreldrar eru ánægðir með skólabúningana.


Skólamáltíðir 

Í grunnskólum Reykjanesbæjar er boðið uppá heitar máltíðir í hádeginu. Hægt er að kaupa stakar máltíðir eða vera í fastri áskrift, allt eftir því hvað hentar hverjum og einum. Skólamatur ehf. sér um matinn og miðar alltaf við að bjóða upp á hollan og góðan mat og eru matseðlar, hráefni og matreiðsla í samræmi við stranga næringar- og gæðastaðla. Nánari upplýsingar um matseðla og fyrirkomulag fást á heimasíðu Skólamatar: www.skolamatur.is


Tónlistarskóli Reykjanesbæjar 

Hjá Tónlistarskóla Reykjanesbæjar er boðið uppá fjölbreytt tónlistarnám, hljóðfæranám, forskóla og Suzuki nám fyrir yngstu kynslóðina, tónfræðinám og söngnám ásamt lúðra- og strengjasveit. Tónlistarskólinn rekur útibú í öllum grunnskólum bæjarins og hafa nemendur kost á að stunda nám að hluta til á skólatíma. Allar nánari upplýsingar um námsframboð og skólagjöld fást á heimasíðu skólans, reykjanesbaer.is/tonlistarskoli 
Hægt er að ráðstafa hvatagreiðslum Reykjanesbæjar upp í skólagjöld í tónlistarskólanum.