Íþróttir og tómstundastörf

Félagsmiðstöðvar unglinga

88 húsið við Hafnargötu 88 er menningarmiðstöð unglinga 16 ára og eldri og fer þar fram fjölbreytt starfsemi. Markmið hússins er að bjóða uppá heilbrigðan valkost í afþreyingu, aðstoða unglinga við að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd og að vera leiðandi í jákvæðu starfi ungs fólks í bænum. Þar er t.d. kaffihús og tölvuver, aðstaða til tómstunda og breiðtjaldssjónvarp með þægilegri áhorfssaðstöðu. Einnig er þar aðstaða til hvers kyns tónleikahalds.

Félagsmiðstöðin Fjörheimar er starfrækt fyrir aldurshópinn 13-16 ára. Þar fer fram æskulýðsstarf í samvinnu við grunnskóla bæjarins. Markmið Fjörheima er að skapa unglingum vettvang þar sem flestir geta fundið eitthvað við sitt hæfi og halda úti markvissri fræðslu og forvarnastarfi. Fjölbreytt dagskrá er í boði allan veturinn m.a. böll, klúbbastarf, tónleikar, ferðir, Samfés, íþróttamót og margt fleira.


Íþróttir

Reykjanesbær er íþróttabær og hægt er að velja um fjölbreyttar íþróttagreinar fyrir börn og fullorðna. Þ.á.m. körfubolta, knattspyrnu, handknattleik, sund, fimleika, badminton, taekwondo, júdó, lyftingar og skotfimi. Aðstæður til íþróttaiðkunar eru eins og best verður á kosið. Hjá golfklúbbi Suðurnesja er einnig rekið öflgut starf og er klúbburinn með glæsilega aðstöðu á Hólmsvelli í Leiru. Skátastarf er öflugt í Reykjanesbæ og KFUM og KFUK eru að auki með starfsemi fyrir börn og unglinga.


Útivist og hreyfing

Reykjanesið býður uppá ótalmarga möguleika til útvistar og í seilingarfjarlægð eru margir áhugaverðir staðir og náttúruperlur sem vert er að skoða. Þar má t.d. nefna Garðskaga, Bláa lónið, Gunnuhver, Sandvík, Krýsuvík, Reykjanes, Seltjörn og Sólbrekkuskógur, brú á milli heimsálfa og svo mætti lengi telja. Margar merktar gönguleiðir liggja um Reykjanesið og gaman að ganga á hin ýmsu fjöll í nágrenninu, má þar helst nefna Keili, Trölladyngju og Þorbjörn. Að auki má finna fjölbreytta afþreyingu innan Reykjanesbæjar og má þar nefna Listasafn Reykjanesbæjar, Nýja bíó, sundmiðstöðina og vatnaleikjagarðinn Vatnaveröld, innileiksvæði á Ásbrú, golf- og púttvelli, Víkingasafnið Íslending og sýninguna Smithsonian Vikings sem opnar haustið 2009. Ekki má svo gleyma Skessunni í fjallinu sem flutti í Svarta helli við smábátahöfnina í Gróf haustið 2008 og stórskemmtilegt er að heimsækja. Sundmiðstöðin og vatnaleikjagarðurinn Vatnaveröld eru mikið sóttir af börnum og fullorðnum, Reykjanesbær býður öllum börnum á grunnskólaaldri frítt í sund.

Víðsvegar um Reykjanesbæ eru spark- og körfuboltavellir, við flesta grunnskóla og t.d. við Grænás sem er rétt fyrir neðan Ásbrú. Við Holta- og Njarðvíkurskóla eru afgirtir körfuboltavellir sem lagðir eru plastefni sem auðveldar að á þeim í bleytu og hágæða körfur.

Á Ásbrú eru stórskemmtilegar sleðabrekkur í göngufæri frá íbúðahverfum og þar eru börn dugleg að safnast saman og renna sér, einnig er frábær sleðabrekka á Kambi sem er manngert „fjall“ í Innri-Njarðvík og er jafnframt útivistar- og útsýnisstaður.

Fjölbreyttar tómstundir bjóðast börnum og unglingum á sumrin og gefur Reykjanesbær út vandaðan bækling á hverju vori þar sem kynntir eru þeir möguleikar sem eru í boði. Allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi og má þar helst nefna íþrótta- og leikjaskóla Keflavíkur, söngnámskeið, sportköfunarnámskeið, smíðavelli, golfæfingar, siglinganámskeið, reiðnámskeið Hestamannafélagsins Mána, skólagarða, Listaskóla barnanna, Sumarfjör Fjörheima og Vinnuskólans, útilífsnámskeið skátanna og svo mætti lengi telja.