Verklegir áfangar hjá nemendum í fótaaðgerðafræði hjá Keili

Í ágúst var nám í fótaaðgerðafræði sett í annað sinn í Keili, en skólinn bauð í fyrsta skipti upp á námið síðastliðið vor. Leggja nú á annan tug nemenda stund á nám í fótaaðgerðafræði við Keili og er námið það eina sinnar tegundar á Íslandi. Mikil ánægja er meðal nemenda með námið og kennsluhætti, sem og nýja sérhæfða kennsluaðstöðu sem tekin var í notkun í vor.

Nemendur á annarri önn námsins hafa nú þegar lært hinar ýmsu útfærslur spangatækni og hlífðarmeðferða. Þeir munu í haust taka á móti skjólstæðingum og meðhöndla þá í vinnuumhverfi fótaaðgerðafræðinga. Almenningi gefst tækifæri á að bóka tíma hjá nemum og er nemagjaldið 3.000 kr. fyrir hvert skipti. Opnað verður fyrir bókanir í þessa tíma í byrjun september og verður þá hægt að panta tíma í móttöku Keilis á netfangið keilir@keilir.net eða í síma 578 4000. 

Nám í fótaaðgerðafræði

Fótaaðgerðafræðingar meta ástand fóta, greina fótamein og meðhöndla þau fótamein, sem ekki krefjast sérstakrar læknisfræðilegrar meðferðar. Þeir ráðleggja um heilbrigði fóta, meðferð og forvarnir fótameina og þau úrræði sem finnast í heilbrigðiskerfinu þar að lútandi. Þá skipuleggja þeir, framkvæma og meta eigin vinnu í samræmi við viðurkennda gæðastaðla og halda sjúkraskrár samkvæmt lögum þar um. 

Nám í almennum kjarna og heilbrigðisgreinum taka 3-4 annir og er gert ráð fyrir því að nemendur hafi alla jafna lokið því námi áður en þeir hefja nám í sérgreinum fótaaðgerðafræðinnar. Sérnámið er skipulagt sem þriggja anna nám og eru áfangarnir kenndir á þremur samliggjandi önnum. Bóklegir áfangar eru kenndir í fjarnámi með reglulegum staðlotum og verklegir áfangar eru kenndir í aðalbyggingu Keilis á Ásbrú í Reykjanesbæ.

Nánari upplýsingar um námið má nálgast á heimasíðu námsins.