Kynning á leiðsögunámi í ævintýraferðamennsku

Kynningarfundur um nýtt leiðsögunám í ævintýraferðamennsku (Adventure Sport Certificate) verður haldinn í aðalbyggingu Keilis á Ásbrú þriðjudaginn 16. júlí næstkomandi kl. 19:00.

Ragnar Þór Þrastarson, verkefnastjóri leiðsögunámsins og útskrifaður leiðsögumaður í ævintýraferðamennsku frá Thompson Rivers University segir frá uppbyggingu námsins. Allir velkomnir. Nánari upplýsingar á: www.adventurestudies.is
 
Nýtt og spennandi háskólanám: Adventure Sport Certificate
 
Thompson Rivers University (TRU) í Kanada býður upp á krefjandi og sérhæft leiðsögunám í ævintýraferðamennsku á háskólastigi (Adventure Sport Certificate) í samstarfi við Íþróttaakademíu Keilis. Um er að ræða átta mánaða nám sem hentar vel þeim sem hafa mikinn áhuga á ferðamennsku og útivist við krefjandi aðstæður.
 
Nemendur öðlast alþjóðleg réttindi til starfa við ævintýraleiðsögn og hafa mikla möguleika á að vinna á fjölbreyttum starfsvettvangi víða um heim. Námið byggir að miklu leiti á verklegri kennslu í íslenskri náttúru auk fræðilegs hluta sem fer fram í Keili á Ásbrú. Kennarar og leiðbeinendur hafa allir hlotið alþjóðlega vottun og eru sérfræðingar hver á sínu sviði.
 
TRU er einn virtasti háskóli í heimi sem býður upp á nám í ævintýraleiðsögn og útskrifast nemendur námsins með alþjóðlegt skírteini frá þeim (Adventure Sport Certificate). Allar einingar námsins eru metnar í framhaldsnám við skólann á sviði ævintýraferðamennsku, svo sem Adventure Guide Diploma, Adventure Management Diploma eða í fullt nám til BS gráðu í Adventure of Tourism Management.
 
Námið er góður grunnur að helstu þáttum ævintýraferðamennsku. Það hentar þeim sem hyggja á starfsframa í ört vaxandi starfsgrein eða áframhaldandi háskólanám í faginu.