Fótaaðgerðafræðinám Keilis fer vel af stað

Sigríður Lovísa Sigurðardóttir, nemandi í fótaaðgerðafræði hjá Keili
Sigríður Lovísa Sigurðardóttir, nemandi í fótaaðgerðafræði hjá Keili

Keilir bauð í fyrsta skipti upp á nám í fótaaðgerðafræði vorið 2017 en þá hófu tíu nemendur nám við skólann. Nú stunda hátt í tuttugu nemendur fótaaðgerðafræði og er mikil ánægja meðal nemenda með námið og kennsluhætti, ásamt nýrri og sérhæfðri kennsluaðstöðu sem tekin var í notkun á síðasta ári.

Sigríður Lovísa Sigurðardóttir, nemandi í fótaaðgerðafræði hjá Keili segir að námið í hafi komið sér skemmtilega á óvart. „Ég var búin að skoða þetta nám áður ogbúin að hugsa um að læra fótaaðgerðafræði. Ég er mjög ánægð með að hafa loksins tekið slaginn og sótt um og vera byrjuð í þessu námi“, segir Sigríður.
 

Sigríður er lærður hjúkrunarfræðingur en langaði að breyta til og finna sér starfsvettvang þar sem hún gæti stjórnað sínum vinnutíma sjálf. Þá er hún ánægð með fyrirkomulag námsins sem gerir nemendum auðveldara að koma aftur í nám eftir langa fjarveru úr skóla. „Kennsluaðferðin vendinám er þægilegt fyrirkomulag sérstaklega fyrir fólk sem er að hafja nám aftur eftir langa pásu. Að hafa aðgang að fyrirlestrunum á netinu þann tíma dags sem þér hentar og á þeim hraða sem þú þarft gerir manni auðveldara fyrir að komast af stað aftur.“

Að lokum segist Sigríður vera ánægð með bæði kennara og aðstöðuna í Keili „Kennarar og aðrir starfsmenn sem hafa aðstoðað og stutt okkur við að komast af stað í náminu og halda okkur við efnið hafa allir mikinn metnað fyrir því sem þau eru að gera. Mjög færir kennarar sem við höfum verið með og einnig hefur annað starfsfólkk, tölvudeildin og námsráðgjafarnir sýnt okkur og frætt um aðra nauðsynlega þætti námsins. Námsloturnar sem hafa farið fram í Keili hafa verið vel skipulagðar og er gott starfsumhverfi fyrir nemendur þar. Fótaaðgerðastofan sem er staðsett á Keili er vel tækjum búin og snyrtileg.“

Fjölbreytt nám í fótaaðgerðafræði 

Fótaaðgerðafræðingar meta ástand fóta, greina fótamein og meðhöndla þau fótamein, sem ekki krefjast sérstakrar læknisfræðilegrar meðferðar. Þeir ráðleggja um heilbrigði fóta, meðferð og forvarnir fótameina og þau úrræði sem finnast í heilbrigðiskerfinu þar að lútandi. Skipuleggja, framkvæma og meta eigin vinnu í samræmi við viðurkennda gæðastaðla og halda sjúkraskrár samkvæmt lögum þar um. 

Nám í almennum kjarna og heilbrigðisgreinum taka 3 - 4 annir og er gert ráð fyrir því að nemendur hafi alla jafna lokið því námi áður en þeir hefja nám í sérgreinum fótaaðgerðafræðinnar. Sérnámið er skipulagt sem þriggja anna nám og eru áfangarnir kenndir á þremur samliggjandi önnum. Bóklegir áfangar eru kenndir í fjarnámi með reglulegum staðlotum og verklegir áfangar eru kenndir í aðalbyggingu Keilis á Ásbrú í Reykjanesbæ.

Nánari upplýsingar og umsókn um nám

Næsti bekkur í fótaaðgerðafræði byrjar í ágúst 2018 og er umsóknarfrestur um nám til 11. júní næstkomandi. Nánari upplýsingar um námið má nálgast hér.