ÍAK styrktarþjálfari

ÍAK styrktarþjálfari er einstakt nám fyrir fagfólk í styrktar- og ástandsþjálfun íþróttafólks á afreksstigi. Námið er mjög hagnýtt, hnitmiðað og skipulagt af íslenskum og erlendum sérfræðingum úr heimi styrktarþjálfunar. Nemendur útskrifast með viðurkenningu sem ÍAK styrktarþjálfarar.

Fyrirkomulag náms

  1. Umsækjendur með viðeigandi grunnmenntun. ÍAK einkaþjálfarar, íþróttafræðingar, sjúkraþjálfarar og aðrir með viðeigandi grunnmenntun, geta sótt um að fá allt að helming námsins metið. 
  2. Umsækjendur án viðurkenndar grunnmenntunar taka fullt nám (tvær annir), grunn á haustönn samhliða einkaþjálfaranemum.  

Markmiðið með náminu

  • skapa framúrskarandi styrktar- og ástandsþjálfara sem hafa hæfni til að búa til einstaklingsmiðaðar æfingaáætlanir fyrir íþróttamenn og lið með það að markmiði að hámarka getu þeirra og lágmarka hættu á meiðslum.
  • nemendur skilji samþættingu styrktarþjálfunar og íþróttaþjálfun ólíkra einstaklinga úr ýmsum íþróttagreinum.

Helstu áhersluatriði í náminu

Mikil áhersla er á hagnýta þætti í þjálffræði. Farið verður ítarlega í gerð æfingakerfa fyrir mismunandi æfingatímabil hvort sem er fyrir einstaklinga eða lið. Kennd verða hagnýt frammistöðupróf, mismunandi aðferðir lyftinga, mismunandi upphitunaraðferðir fyrir æfingar og leiki eftir eðli íþróttagreinar, kraft-, hraða- og liðleikaþjálfun. Einnig verður lögð áhersla á næringu íþróttamanna og starfsumhverfi styrktarþjálfara á Íslandi í samanburði við erlendan starfsvettvang.

Í lok námsins munu þátttakendur hafa öðlast færni til að skapa og þjálfa íþróttamenn í fremstu röð. Farið verður ítarlega í:

  • Mælingar íþróttafólks
  • Mismunandi upphitunaraðferðir eftir íþróttagreinum, fyrir æfingar og leiki
  • Næringarfræði með áherslu á þarfir íþróttafólks (sports nutrition)
  • Styrktarþjálfun; grunnur í tæknilegri framkvæmd æfinga í kraftlyftingum og ólympískum lyftingum - kynning á þjálfunarformunum og hvernig má blanda þessum æfingum í æfingarkerfi íþróttamannsins
  • Gerð æfingakerfa fyrir mismunandi æfingatímabil eftir eðli íþróttagreina fyrir einstaklinga og lið
  • Starfsumhverfi styrktarþjálfara á Íslandi samanborið við önnur lönd. Staðan í dag og framtíðarmöguleikar fyrir styrktarþjálfara

Fyrir hverja er námið?

ÍAK styrktarþjálfaranámið er sniðið til að mæta þörfum fólks með grunnþekkingu á íþrótta- og þjálfarafræðum og vilja bæta við þekkingu sína til að geta unnið einstaklingsmiðað með styrktar- og ástandsþjálfun íþróttamanna. Námskeiðið nýtist einnig íþróttamönnum sem vilja ná hámarksárangri í sinni íþrótt.

Kennarar námsins

Allir kennarar námsins hafa mikla reynslu og þekkingu á sínu fagi. Erlendir sérfræðingar koma að nokkrum áföngum og færa með sér sérfræðiþekkingu úr rótgrónu umhverfi styrktarþjálfunar erlendis frá. Íslenskir sérfræðingar okkar hafa kennt við ÍAK námið við góðan orðstír, sumir árum saman. 

Umsókn um nám

Fyrirspurnum varðandi umsóknarferlið, svarar Haddý Anna Hafsteinsdóttir, verkefnastjóri ÍAK