Vinsælar Flugbúðir Flugakademíu Keilis

Úr Redbird flughermi Keilis
Úr Redbird flughermi Keilis

Flugakademía Keilis býður upp á Flugbúðir fyrir áhugafólk um flug sem og þá sem hyggja á nám innan fluggeirans. Gjafabréf á námskeiðið er tilvalin jólagjöf fyrir flugáhugamanninn. Bæði er boðið upp á helgarnámskeið fyrir 16 ára og eldri um miðjan febrúar ásamt sumarnámskeiði fyrir unglinga í júní. 

Gríðarlegur áhugi hefur verið fyrir Flugbúðunum síðan Flugakademía Keilis bauð fyrst upp á námskeiðin og eru þau upplagður vettvangur til að fá innsýn inn í flugheiminn. Í Flugbúðunum verður farið yfir allt það áhugaverðasta og skemmtilegasta sem kennt er í flugtengdum fögum, nemendur fá að kynnast því hvernig veður hefur áhrif á flug, uppbyggingu flugvéla og hvernig þær fljúga. Einnig verða skoðaðar aðrar hliðar flugheimsins, til dæmis flugvirkjun og flugumferðastjórn. Allt eru þetta spennandi fög en oft framandi venjulegu fólki. 

Vettvangsferðirnar skipa einnig stóran sess, enda mikil upplifun að fá að fara inn á flugverndarsvæðið og sjá þá fjölbreyttu flóru af flugtengdum vinnustöðum sem yfirleitt eru lokaðir almenningi. Þar verður farið í heimsókn í aðstöðu Keilis, þar sem verklega flugnámið er kennt. 

Þá fá allir nemendur tækifæri á að prófa að fljúga í nýjum og fullkomnum flughermi Keilis og afslátt í kynnisflug í einni af kennsluvélum Flugakademíunnar. Flugbúðir Keilis eru stútfullar af spennandi efni þar sem skiptist á kennsla og fyrirlestrar í bland við vettvangsferðir og verklegar æfingar.

  • Sumarnámskeið fyrir 10 - 12 ára
    Námskeiðið er ætlað einstaklingum á aldrinum 10 - 12 ára og er í fjóra daga, frá mánudegi til föstudags (frí 17. júní), kl. 9:00 - 15:00. Innifalið er hádegismatur, námsgögn og vettvangsferðir. Einnig innifalið 30 mínútna kynning á Redbird þjálfunarflughermi Flugakademíu Keilis.

  • Sumarnámskeið 13 ára og eldri
    Námskeiðið er ætlað einstaklingum 13 ára og eldri. Námskeiðið er í fjóra daga, frá mánudegi til og með fimmtudags, kl. 9:00 - 15:00. Innifalið er hádegismatur, námsgögn og vettvangsferðir. Einnig innifalið 30 mínútna kynning á Redbird þjálfunarflughermi Flugakademíu Keilis.

  • Helgarnámskeið í febrúar 2015 fyrir 16 ára og eldri
    Námskeiðið er ætlað einstaklinum sem hafa náð 16 ára aldri. Námskeiðið er í tvo daga, frá laugardegi til sunnudags, kl. 9:00 - 16:00. Innifalið er hádegismatur, námsgögn, vettvangsferðir. Einnig innifalið 30 mínútna kynning á Redbird þjálfunarflughermi Flugakademíu Keilis.

Tilvalin jólagjöf fyrir flugáhugamanninn 

Miðað við umsagnir þátttakenda eftir síðasta námskeið, ættu menn ekki að láta þetta tækifæri fram hjá sér fara. „Skemmtileg og góð reynsla“, „Gott og vel skipulagt námskeið“ og „Besta námskeið í heimi“ eru dæmi um umsagnir frá þátttakendum.

Gjafabréf í Flugbúðir Keilis er tilvalin jólagjöf fyrir flugáhugamanninn. 

Nánari upplýsingar eru að finna á heimasíðunni og á netfangið sigrunsvafa@keilir.net


Tengt efni