Við erum í skýjunum

Frá heimboði verðandi atvinnuflugmanna
Frá heimboði verðandi atvinnuflugmanna
Um þrjátíu manns heimsóttu Flugakademíu Keilis á opnum kynningardegi laugardaginn 5. apríl síðastliðinn. Tilgangurinn var að kynna nám og starf atvinnuflugmanna, ásamt því að gefa gestum möguleika á að heyra frásagnir núverandi nemenda skólans og starfandi flugmanna, skoða námsaðstöðu og kennsluflugvélar skólans, sem eru þær fullkomnustu á landinu.
 
Það er ljóst að það er mikill og vaxandi áhugi meðal ungs fólks að starfa í flugtengdum greinum. Á síðasta ári sóttu um 130 einstaklingar um nám í flugvirkjun hjá Keili og í haust hóf stærsti árgangur atvinnuflugmannsnemenda nám við Flugakademíuna frá því að skólinn var stofnaður árið 2008. Eftir að opnað var fyrir umsóknir um nám í Flugakademíu Keilis í síðasta mánuði, er ljóst að þessi hópur fer ört vaxandi.
 
Til þess að sinna enn betur þeim aðilum sem hafa hug á atvinnuflugmannsnámi, var ákveðið að vera með heimboð í Flugakademíu Keilis, þar sem farið var yfir skipulag námsins og starfsmöguleika í framtíðinni. Fyrst og fremst var tilgangurinn að tengja saman verðandi atvinnuflugmenn við núverandi nemendur, flugkennara og starfsfólk Keilis, þannig að hver og einn gæti fengið persónulega þjónustu og viðeigandi upplýsingar um námið. Eins og áður kom fram, þáðu um þrjátíu einstaklingar boðið og tóku margir fjölskyldumeðlimi með sér, enda er ákvörðunin að fara í dýrt og krefjandi nám ekki léttvæg. Fjölmargir fóru síðan í kynnisflug í kennsluvélum Flugakademíunnar í lok dagsins.
 
Framtíðin er hjá Flugakademíu Keilis
 
Á undanförnum árum hefur Keilir byggt upp öflugt samfélag námsmanna á Ásbrú í Reykjanesbæ. Með auknum nemendafjölda í fullu námi við Flugakademíu Keilis hefur jafnframt myndast skemmtileg og alþjóðleg liðsheild ungra flugnemenda og kennara sem býr, stundar nám og starfar í námunda við Keflavíkurflugvöll. Nálægðin við stóran alþjóðaflugvöll og þá starfsemi sem þar fer fram, er nemendum okkar ómetanleg, enda eru þeir þar með ávallt í tæri við það starfsumhverfi sem þeir stefna að í framtíðinni. 
 
Flugakademía Keilis getur einnig státað af fullkomnustu og tæknivæddustu kennsluvélum á landinu. Sem stendur rekur skólinn fimm Diamond flugvélar, þar af eina tveggja hreyfla DA-42 TwinStar flugvél með afísingarbúnaði og er það er eina kennsluvélin á landinu með slíkan búnað. Með aukinni ásókn í flugnám hjá Keili er ljóst að fjölga verður verulega á næstu misserum og er von á sjöttu kennsluvélinni í þessum mánuði.
 
Flugbúðir í sumar fyrir ungt fólk sem hefur áhuga á flugi
 
Flugakademía Keilis verður með áframhald á vinsælum Flugbúðum sem haldnar voru síðasta sumar fyrir ungt fólk með brennandi áhuga á flugi og flugtengdum greinum. Á fjórum dögum fá þátttakendur innsýn í áhrif veðurs á flug, hvernig flugvélar eru uppbyggðar og hvernig þær fljúga, ásamt því að kynnast öðrum hliðum flugheimsins svo sem flugvirkjun og flugumferðarstjórn. Námskeiðið fer frá í aðalbyggingu Keilis á Ásbrú og verða vettvangsferðir á Keflavíkurflugvöll og í verklega aðstöðu Flugakademíunnar á flugvallarsvæðinu. Hápunktur námskeiðsins er síðan kynnsiflug í kennsluvél Flugakademíunnar.
 
Allar nánari upplýsingar um flugnám hjá Keili eru að finna á heimasíðunni www.flugakademia.is og á www.facebook.com/keiliraviationacademy

Tengt efni