Tækifærin eru í flugi og tengdri starfsemi

Morgunblaðið fjallaði um nám í Flugakademíu Keilis þann 9. mars síðastliðinn.

Ný kennsluflugvél er komin í flugflota Flugakademíu Keilis en vélin er af gerðinni DA40 og er kennsluvél frá austurríska flugvélaframleiðandanum Diamond.

„Þessi vél á að bregðast við aukinni eftirspurn eftir flugnámi við skólann en fyrir hefur akademían yfir að ráða átta flugvélum frá sama framleiðanda. Fimm tveggja sæta DA20 vélar, tvær fjögurra sæta DA40 og eina tveggja hreyfla DA42 vél,“ segir Arnbjörn Ólafsson, forstöðumaður markaðs- og alþjóðamála Keilis.

Nýja vélin hefur fengið auðkennisstafina TF-KFH og er með tæknivæddustu kennsluvélum á landinu að sögn Arnbjörns. „Hún er búin fullkomnum blindflugsbúnaði, stórum tölvuskjám og nútíma flugmælitækjum auk sjálfstýringar og veðursjár.“

Ganga inn í vel launuð störf

Arnbjörn segir mikla eftirspurn vera eftir flugmönnum og flugvirkjum bæði á Íslandi og almennt í heiminum í dag. Fólk með þessa menntun gengur inn í vel launuð störf í spennandi starfsumhverfi og endurspeglar það áhugann og aukningu í flugnámi og námi flugvirkja.

„Flugakademía Keilis hóf starfsemi árið 2008 með tvær kennsluvélar og fjóra flugnemendur. Átta árum seinna eru vélarnar orðnar níu talsins og nemendurnir 120, þar af langflestir í fullu atvinnuflugmannsnámi. Það skemmir ekki fyrir að floti kennsluvéla Keilis er orðinn einn sá nýstárlegasti og yngsti í Evrópu.“

Hátt í helmingur nemenda við Flugakademíu Keilis er útlendingar og skýrist það aðallega af tvennu segir Arnbjörn. „Þegar krónan féll varð allt í einu miklu ódýrara fyrir flugnema, t.d. frá hinum norrænu löndunum, að koma til Íslands að læra. Þá eru það ekki síst aðstæður hér á landi sem draga að erlenda nemendur en hér eru engar takmarkanir á flugi og miklu skemmtilegra að lenda á erfiðum flugvöllum eins og t.d. Ísafirði en einhverri flatneskju í Danmörku.“ 


Tengt efni