Samtvinnað atvinnuflugmannsnám

Flugakademía Keilis hefur fyrstur flugskóla á Íslandi fengið samþykki Samgöngustofu (SGS) til að halda samtvinnað (integrated) nám til atvinnuflugmannsréttinda (ATPL Integrated Flight Training Program).

Hingað til hafa flugnemar á Íslandi þurft að ljúka einkaflugmannsréttindum til að mega sitja bóklegt atvinnuflugmannsnámskeið (ATPL). Að þeim loknum þurftu þeir síðan að ljúka bóklegu ATPL námskeiði áður en hægt var að skrá í sig í verkleg námskeið til atvinnuflugmanns- og blindflugsréttinda, sem og að ljúka lágmarks flugtímum til að standast inntökukröfur námskeiðanna. Á samtvinnuðu ATPL námskeiði byrjar flugneminn á fyrsta degi í þjálfun til atvinnuflugmannsskírteinis. Námið er þaulskipulagt, bæði bóklegt og verklegt og tekur u.þ.b. 18 mánuði í fullu námi.

Nú þegar er að verða fullmannað í fyrsta samtvinnaða bekkinn hjá Flugakademíu Keilis og stefnir í að boðið verði upp á tvo samhliða bekki í atvinnuflugmannsnáminu í haust. Til að mæta þessum auknu umsvifum hefur Flugakademían þegar fest kaup á þriðju DA20-C1 kennsluflugvél skólans, auk fullkomins flughermis (FNPTII/Flight Navigation Procedure Trainer) frá Redbird.

Flugakademían starfrækir nú samtals sex fullkomnar flugvélar að gerðinni Diamond, þar af eina Diamond DA42 Twin Star sem er eina kennsluvél á landinu búin afísingarbúnaði. Gert er ráð fyrir að því að bæta við enn fleiri kennsluflugvélum á næstu misserum til að mæta þessari vinsælu námsleið sem býðst nú í fyrsta skipti á Íslandi. 

Námsskipulag í samtvinnuðu ATPL námi

Á samtvinnuðu ATPL námskeiði byrjar flugneminn á fyrsta degi í þjálfun til atvinnuflugmannsskírteinis. Námið er þaulskipulagt, bæði bóklegt og verklegt og tekur u.þ.b. 18 mánuði í fullu námi. Inntökuskilyrði á samtvinnuðu atvinnuflugmannsnámi eru:

  • 1. flokks heilbrigðisvottorð
  • Krafa um enskukunnáttu (ICAO level 4 eða hærra), stærðfræði (a.m.k. 9 einingar úr framhaldsskóla) og eðlisfræði (a.m.k. 6 einingar úr framhaldsskóla). Umsækjendur geta einnig þreytt inntökupróf við Flugakademíu Keilis.
  • Allir umsækjendur eru teknir í viðtal áður en þeir eru samþykktir í námið. 

Þjálfunin samanstendur að lágmarki af:

  • 750klst bóklegt atvinnuflugmannsnámskeið (skiptist í fjóra hluta).
  • 25klst bóklegt áhafnarsamstarfsnámskeið.
  • 195klst verkleg flugþjálfun, þar af mega 55klst vera í flugaðferðarþjálfa (FNPTII).

Þegar þjálfun er lokið á fullnægjandi hátt þreytir umsækjandinn verklegt atvinnuflugmannspróf og próf til blindflugsréttinda á fjölhreyfla flugvél. Ef próftakinn stenst prófið hlýtur viðkomandi atvinnuflugmannsskírteini með blindflugsáritun: ATPL(f) CPL,ME/IR (Airline Transport Pilot Licence (frozen), Commercial Pilot Licence Multi Engine / Instrument Rating).

Samtvinnað nám gerir þá kröfu að nemendur sinni því að fullu á meðan námstíma stendur og er frá fyrsta degi lögð mikil áhersla á fagmennsku, nákvæmni og öguð vinnubrögð.

Nánari upplýsingar: Integrated Professional Pilot Program


Tengt efni