Rúmlega tvö hundruð atvinnuflugmenn hafa útskrifast frá Keili

28 nemendur útskrifuðust úr atvinnuflugmannsnámi Keilis í janúar 2018
28 nemendur útskrifuðust úr atvinnuflugmannsnámi Keilis í janúar 2018
Flugakademía Keilis útskrifaði 28 atvinnuflugnema og 22 flugvirkja við hátíðlega athöfn 12. janúar síðastliðinn.
 
Var þetta í átjánda skiptið sem Keilir brautskráir nemendur úr atvinnuflugnámi skólans og hafa þá samtals 203 atvinnuflugmenn útskrifast frá upphafi skólans. Aukin aðsókn hefur verið í flugnám við skólann og hefur verið fullbókað í síðustu bekki í náminu, en aldrei hafa fleiri einstaklingar lagt stund á atvinnuflugmannsnám í Keili en nú. Þá hefur Flugakademían bætt við flugvélakostinn og bætast fjórar fullkomnar kennsluvélar á árinu við þær tíu sem skólinn starfrækir nú þegar.
 
Rúnar Árnason, forstöðumaður Flugakademíu Keilis flutti ávarp og afhenti atvinnuflugmönnum prófskírteini ásamt Snorra Pál Snorrasyni skólastjóra Flugakademíunnar. Sören Molbech Madsen fékk viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsárangur í atvinnuflugmannsnámi með 9,75 í meðaleinkunn. Fékk hann gjafabréf frá WOWair og bók frá Icelandair. 
 
Þá útskrifaði Flugakademían í fjórða sinn flugvirkjanema, en boðið er upp á námið í samvinnu við AST (Air Service Training) í Skotlandi. Rannveig Erla Guðlaugsdóttir, þjálfunarstjóri flugvirkjanáms, aðstoðaði við útskriftina. 22 nemendur útskrifuðust úr náminu að þessu sinni og fékk Bergur Sverrisson viðurkenningu fyrir góðan námsárangur. Fékk hann bókagjöf frá Isavia. 
 
Með útskriftinni hafa samtals 68 nemendur lokið flugvirkjanámi við skólann. Davíð Ingi Jóhannsson, nemandi í flugvirkjanámi, flutti ræðu útskriftarnema fyrir hönd Flugakademíu Keilis. Hann hlaut einnig viðurkenningu frá deildinni fyrir góðan árangur og eljusemi og fékk bókagjöf frá Isavia.
 

Tengt efni