Mikill áhugi á flugnámi í Keili í samvinnu við Icelandair

Um eitt hundrað nemendur Flugakademíu Keilis sóttu kynningu Icelandair í húsakynnum skólans á Ásbrú þann 27. september síðastliðinn. Icelandair er að bregðast við skorti á flugmönnum með náinni samvinnu við Keili. 

 „Við hjá Icelandair, eins og fleiri flugfélög, erum að sjá fram á skort á flugmönnum og erum þess vegna að kynna nýja námsleið sem Icelandair stendur að í samvinnu við flugskólana á Íslandi og erlenda flugskóla. Megin tilgangurinn er að vekja athygli á flugnáminu og í raun að hvetja fólk til þess að fara að læra að fljúga. Þetta er mjög áhugaverður og skemmtilegur starfsvettvangur,“ segir Haukur Reynisson, yfirflugstjóri hjá Icelandair.
 
Sigrún Jónsdóttir, þjálfunarstjóri hjá Icelandair, segir að námsleiðin sé þannig byggð upp að nemendur fara í námið í samvinnu við Icelandair og félagið mun þá koma að því m.a. með því að hjálpa til með fjármögnun þess og ef aðstæður leyfa kemst fólk í forgang með vinnu hjá félaginu að loknu námi. 
 
„Þetta samstarf við Icelandair gefur okkur byr undir báða vængi og er viðurkenning á okkar starfi. Núna eru um 200 nemendur, mis langt komnir, í flugnámi hjá okkur. Þetta mun líka gefa nemendum okkar meiri styrk í námi. Þegar valkerfið fer í gang hjá Icelandair meðal okkar nemenda þá munu þeir vita fyrr á námsleiðinni sinni hvernig staða þeirra er gagnvart félaginu,“ segir Rúnar Árnason, framkvæmdastjóri Flugakademíu Keilis.
 
Að sögn Hauks og Sigrúnar er áætlað að flugnámið taki um 18 til 20 mánuði í samtvinnuðu atvinnuflugmannsnám Flugakademíu Keilis sem hefst næst 19. janúar næstkomandi. Námið er hagkvæmasta og fljótlegasta leiðin í starf atvinnuflugmanns, og hefur verið fullbókað í námsleiðina í síðustu skiptin sem hún hefur verið í boði.
 

Tengt efni