Mikill áhugi á atvinnuflugmannsnámi

Mikill áhugi er fyrir flugnámi hjá Flugakademíu Keilis og er stefnt á að bjóða upp á tvo bekki í atvinnuflugmannsnámi við skólann í haust. 
 
Flugakademía Keilis var stofnuð árið 2008 og var markmið skólans að nútímavæða bæði kennsluhætti og kennsluvélar. Áhersla er lögð á rafrænt kennsluefni þar sem nemendur geta meðal annars tekið stóran hluta bóklegs náms í einkaflugi á netinu, auk þess sem kennarar nýta smáforrit og spjaldtölvur í kennslu.
 
Keilir nýtir austurrískar kennsluvélar frá Diamond flugvélaframleiðandanum, en þær eru meðal annars notaðar af fremstu flugskólum í heiminum, svo sem Embry-Riddle í Bandaríkjunum og Oxford Aviation Academy. Diamond vélarnar hafa betri eldsneytisnýtingu en hefðbundnar kennsluvélar auk þess sem meirihluti þeirra er með stafrænum mótor- og flugleiðsögutækjum eða svökölluðu „glass-cockpit“. Þetta þýðir að nemendur í atvinnuflugmannsnámi stunda verklegt nám í vélakosti sem samsvarar þeim flugvélum sem þeir munu vinna á í framtíðinni.
 
Flugakademía Keilis hefur tekið á móti fjölda erlendra nemenda á undanförnum árum. Þeir sækja í flugnám hér á landi vegna hagstæðs verðlags, auk reynslunnar að fljúga í íslensku umhverfi, sem getur verið mjög krefjandi fyrir flugmenn. Aðbúnaður og nemendaíbúðir á Ásbrú, ásamt því að stunda verklegt nám á Keflavíkurflugvelli innan um mikla alþjóðlega flugumferð, hefur einnig átt sinn þátt í að erlendir flugnemendur velja að læra atvinnuflug hjá Keili.

Tengt efni