Frumkvöðlar í íslenskri flugsögu heiðraðir

Hörður og Dagfinnur á Flugdeginum
Hörður og Dagfinnur á Flugdeginum

Keilir heiðraði tvo frumkvöðla í íslenskri flugsögu á Flugdeginum á Reykjavíkurflugvelli, þann 29. maí síðastliðinn. Við þetta tækifæri festi Flugakademía Keilis nöfn Dagfinns Stefánssonar og Harðar Guðmundssonar á tvær af vélum skólans. Með þessu vill Keilir tengja starf sitt við söguna en um leið sýna frumkvöðlunum tilhlýðilega virðingu.

Dagfinnur er einn af stofnendum Loftleiða og var einn nánasti samstarfsmaður Alfreð Elíassonar. Afrek þeirra mörkuð djúp spor í þróun flugmála á Íslandi. Án frumkvæðis þeirra og dugnaðar væri flugið ekki jafn blómlegt og raun ber vitni. Hörður er einnig orðin goðsögn í lifanda lífi. Frumkvæði hans og áræði við sjúkra- og almennt flug, ekki síst á Vestfjörðum, er ævintýri líkast. Elja hans og kjarkur er fáu líkt í þeim efnum. Þá hefur Hörður af sama krafti byggt upp flugfélagið Erni sem veitir mörgum góða og dygga þjónustu.

Flugakademía Keilis er það mikill heiður að fá leyfi þessara frumkvöðla til að flugvélar skólans fái að bera nöfn þeirra. Þegar höfðu tvær vélar Keilis fengið nöfn annarra frumkvöðla, þeirra Alfreðs Elíassonar og Arngríms Jóhannssonar.


Tengt efni