Frábærum flugbúðum Keilis lokið

Dagana 14. - 16. febrúar stóð Flugakademía Keilis fyrir flugbúðum fyrir ungt fólk þar sem sextán flugáhugamenn sóttu námskeið og kynningu á flugi og flugtengdum störfum.

Á námskeiðinu var farið yfir allt það áhugaverðasta og skemmtilegasta sem kennt er í flugtengdum fögum. Þátttakendur fengu innsýn inn í áhrif veðurs á flug, hvernig flugvélar eru uppbyggðar og hvernig þær fljúga. Einnig var kynning á öðrum hliðum flugheimsins til dæmis flugvirkjun og flugumferðastjórn. 

Farið var í vettvangsferðir meðal annars í flugturn ISAVIA og í ITS (Icelandair Technical Service) á Keflavíkurflugvelli, þar sem áhugaverðir flugtengdir hlutir voru skoðaðir. Auk þess fengu þátttakendur að skoða kennsluflugvélar Flugakademíunnar sem eru þær fullkomnustu á landinu.

Næstu flugbúðir verða haldnar í sumar. Námskeiðið hentar vel þeim sem hafa brennandi áhuga á flugi og flugtengdum málum, sem og þeim sem hyggja á flugnám í framtíðinni. Allir þátttakendur fá persónulega kynningu á Redbird þjálfunarflughermi Flugakademíu Keilis. Nánari upplýsingar um flugbúðirnar má nálgast á heimasíðu Keilis.

Hægt er að skoða  myndir frá flugbúðunum á facebooksíðu Flugakademíunnar.


Tengt efni