Flugakademía Keilis stofnar Flugklúbb Helga Jónssonar

Frá undirritun samningsins
Frá undirritun samningsins
Flugakademía Keilis hefur fest kaup á Flugskóla Helga Jónssonar, elsta flugskóla landsins, og hefur í kjölfarið stofnað Flugklúbb Helga Jónssonar sem verður starfræktur í húsakynnum skólans á Reykjavíkurflugvelli. 
 
Helgi Jónsson stofnaði og rak flugskóla undir sínu nafni frá árinu 1964 og hefur skólinn starfað lengst allra flugskóla á Íslandi. Auk þess kom Helgi að rekstri Odin Air og rak á árunum 1984 til 1996 áætlunarflug til Kulusuk á Grænlandi. Undanfarin ár hefur Jytte Thygesen Marcher, eftirlifandi eiginkona Helga, rekið flugskólann. 
 
Rúnar Árnason, forstöðumaður Flugakademíu Keilis og Jytte undirrituðu kaupin á dögunum. Við undirritunina kom fram að Flugakademía Keilis muni leggja sitt af mörkum til að halda nafni Helga Jónssonar á lofti um ókomna tíð, enda um frumkvöðul að ræða í íslenskri flugsögu. Keilir hefur því stofnað flugklúbb í hans nafni sem verður starfræktur á Reykjavíkurflugvelli. Þar hefur Jytte verið sæmd titlinum heiðursfélagi sem aðildarfélagi númer eitt. Þá hefur Flugakademían einnig ákveðið að nefna eina af kennsluvélum sínum eftir Helga, en á undanförnum árum hefur skólinn nefnt kennsluvélar eftir frumkvöðum íslenskrar flugsögu, þar á meðal Al­freð Elías­syni, Arn­grími Jó­hanns­syni, Dagfinn Stefánssyni og Herði Guðmundssyni. 
 
Flugklúbbur Helga Jónssonar verður öllum opinn en er honum sérstaklega ætlað að auka aðgengi flugnemenda Keilis að tímasöfnun. Hákon Varmar og Magnús Ingi Magnússon, verða umsjónarmenn nýja flugklúbbsins. Hægt verður að nálgast upplýsingar um starfsemina á heimasíðu Flugklúbbsins, en verið er að vinna í uppsetningu hennar. Einnig er hægt að bóka flug með því að senda póst á info@flugskolinn.is eða í síma 551 0880.
 
Eftir sem áður mun Flugakademía Keilis starfrækja öflugt flugtengt nám á Keflavíkurflugvelli, þar með talið einka- og atvinnuflugnám þar sem nemendur hafa aðgang að fyrsta flokks kennsluaðstöðu, tæknivæddasta kennsluflota á landinu og nýstárlegum kennsluháttum.
 
Myndi: Rúnar Árnason (forstöðumaður Flugakademíu Keilis), Jytte Th. Marcher, og Hjálmar Árnason (framkvæmdastjóri Keilis).

Tengt efni