Auknir námslánamöguleikar

Frá undirritun samnings Keilis og Framtíðarinnar
Frá undirritun samnings Keilis og Framtíðarinnar

Flugakademía Keilis hefur gert samstarfssamning við Framtíðina námslánasjóð hf. sem gefa mun nemendum Keilis, sem hyggjast stunda nám í samtvinnuðu atvinnuflugmannsnámi, aukin tækifæri til töku námslána fyrir skólagjöldum.

Samkvæmt samningnum mun Framtíðin bjóða upp á námslán til þeirra sem hyggjast stunda nám í samtvinnuðu atvinnuflugmannsnámi. Greitt er fyrir samtvinnaða námið í þremur greiðslum og býðst námsmönnum að taka lán hjá Framtíðinni fyrir allt að helmingi af annarri greiðslunni (EUR 20.690) og allri þriðju greiðslunni (EUR 20.600).

Samningurinn var undirritaður þann 11. mars af Ellerti Arnarsyni stjórnarmanni í Framtíðinni og Rúnari Fossádal Árnasyni forstöðumanni Flugakademíu Keilis.

Framtíðin

Framtíðin er námslánasjóður sem hóf göngu sína snemma árs 2015. Markmið sjóðsins er að veita námsmönnum framfærslu- og/eða skólagjaldalán hvort sem þeir eru á leið í nám á Íslandi eða erlendis.

Námslán Framtíðarinnar eru jafngreiðslulán (annuitet) með allt að 12 ára endurgreiðslutímabili. Endurgreiðslur lána hefjast ekki fyrr en 6 mánuðum eftir námslok. Ávallt má greiða inn á lánin að hluta eða í heild án nokkurs tilkostnaðar. Boðið er upp á að taka verðtryggt eða óverðtryggt lán.

Kjör lána miðast við vaxtatöflu og gjaldskrá Framtíðarinnar á hverjum tíma, en nánari upplýsingar má nálgast á heimasíðu Framtíðarinnar og á umsóknarvefnum, þar sem jafnframt er sótt um lánið. Reiknivél á umsóknarvef Framtíðarinnar reiknar út greiðslubyrði og endurgreiðsluáætlun lánsins.


Tengt efni