Flugvirkjanám

Air Service Training ltd. (AST) í samstarfi við Keili hefur sett upp útibú frá skóla sínum í Perth í Skotlandi hjá Keili á Ásbrú í Reykjanesbæ. Í skólanum fer fram réttindanám flugvirkja.

Um er að ræða fimm anna samþykkt nám fyrir flugvirkja „Approved IR Part 66 Category B“ sem er bóklegt og verklegt iðnnám flugvirkja. Námið tekur mið af námsskrá sem gefin er út af EASA samkvæmt samevrópskri útgáfu skírteina og sér AST um framkvæmd og ber faglega ábyrgð á gæðum námsins. Þeir sem ljúka flugvirkjanámi hjá AST öðlast öll þau réttindi sem EASA 145 viðhaldsfyrirtæki krefjast við ráðningu flugvirkja fyrir nútíma flugvélar.

Athugið að með umsókn þurfa eftirtalin gögn að fylgja:

 • Staðfest afrit af námsferli
 • Starfsferilskrá
 • Persónulegt bréf þar sem meðal annars koma fram ástæður þess að sótt er um námið
 • Mynd
Nánari upplýsingar í síma 578 4000 eða á netfangið: flugvirkjun@keilir.net
 • Um námið

  Námið fer fram á ensku þrátt fyrir að Keilir hafi aðallega ráðið til starfa og þjálfað íslenska flugvirkjakennara. Fyrsti hluti námsins byrjar á almennu grunnnámi flugvirkja sem saman stendur af bóklegri kennslu í bland við verklega kennslu. Námið er kennt í lotum og tekur grunnnámið 5 annir.

  Að loknu grunnnáminu þá geta nemendur valið sér sína sérleið eftir áhugasviði hvers og eins, þ.e.a.s. valið að verða B1.1 (almennur flugvirki), B1.3 (þyrluflugvirki) og B2 (rafmagnsflugvirki). Til að byrja með verður boðið upp á nám B1.1 hjá Keili en nemendur sem velja B1.3 og B2 að loknu grunnnámi munu ljúka þeim hluta námsins hjá AST í Perth í Skotlandi. Almennt er það þó þannig að nemendur ljúka B1.1 réttindum og bæta síðar við sig annarri sérhæfingu.

  Námið er 2.400 klst. (eða 3.600 kennslustundir) sem veitir nemanda að því loknu heimild til að komast í starfsnám hjá samþykktum Part 145 viðhaldsaðila sem flugvirkjanemi (ATH: Ekki innifalið) í um það bil 24 mánuði sem lýkur síðan með sveinsprófi flugvirkja með áritun til viðhalds flugvéla útbúnum túrbínum. Ráðgert er að hluti námsins á öðru ári fari fram hjá AST í Perth í Skotlandi. Hægt er að nálgast kynningarbækling um námið hér: AST Engineering Brochure [PDF] og ítarlega kynningu á náminu hér: AST Student Induction Presentation CAT-B [PDF].

  Nemendur fá afnot af iPad fyrir námsefni á námstímanum án endurgjalds.

 • Fyrir hverja er námið

  Nám í flugvirkjun er fyrir þá sem vilja öðlast alþjóðleg starfsréttindi og starfa í fjölbreyttu starfsumhverfi að viðhaldi flugvéla af öllum stærðum og gerðum. Miklir alþjóðlegir atvinnumöguleikar eru fyrir flugvirkja og góð tækifæri til frekari menntunar og starfsþróunar.

 • Air Service Training

  AST - Air Service Training er viðurkenndur „Part 147“ þjálfunaraðili til útgáfu flugvirkjaréttinda samkvæmt gæðastöðlum EASA. AST er hluti af Perth College og University of Highlands and Islands (UHI) í Perth í Skotlandi og hefur starfrækt flug- og flugvirkjaskóla á Bretlandseyjum og víðar síðan árið 1931. Þess má geta að Keilir og University of Highlands and Islands ráðgera frekari samstarfsverkefni á komandi misserum.

 • Prófa- og stundatöflur

  Please note that exam tables are subject to change

  Please note that time tables are subject to change

  Time table for fall 2018

 • Fjármögnun

  Nám hjá AST/Perth College er samþykkt af Lánasjóði íslenskra námsmanna (LÍN). Nánari upplýsingar um lánareglur má nálgast á heimasíðu heimasíðu LÍN.

 • Inntökuskilyrði

  Inntökuskilyrði í flugvirkjun hjá Keili-AST:

  • Hafa lokið grunnskólaprófi
  • Lágmarksaldur 18 ára
  • Góð undirstaða í ensku
 • Algengar spurningar

  Hér má nálgast svör við algengum spurningum varðandi nám í flugvirkjun. Ef þú hefur einhverjar spurningar, máttu gjarnan hafa samband við okkur á flugvirkjun@keilir.net

  • Hver er kostnaður nemenda við nám sem fer fram í Skotlandi?

   Nemendur þurfa sjálfir að bera kostnað á gistingu og uppihaldi á meðan á námsdvöl í Skotlandi stendur. Keilir er með sérkjör á gistingu fyrir nemendur í flugvirkjun.

  • Hvar fer námið fram?

   Verklegt nám og þjálfun flugvrikjanema fer fram í „Flugvirkinu“ aðstöðu Flugakademíu Keilis að Funatröð 8 á Ásbrú. Hluti námsins fer fram hjá AST (Air Service Training) í Perth í Skotlandi, um 100 km norður af Glasgow.

  • Á hvaða stigi fer námið fram í Skotlandi?

   Hluti námsins á fimmtu önn fer fram í verklegri aðstöðu AST við flugvöllinn í Perth í Skotlandi. 

  • Hvar gistum við í Skotlandi?

   Nemendur Keilis munu gista á gistiheimili í göngufæri frá skólanum í Perth.

  • Afhverju er námið ykkar dýrara en nám hjá Flugskóla Íslands?

   AST er virtasti skóli í Evrópu á þessu sviði og er þeirra stuðningur alveg frá upphafi til loka náms og þeirra netverk hjálpar nemendum að komast í starfsnám hvar sem er í Evrópu. Samstarfið við AST veitir náminu og útskrifuðum nemendum gæðastimpil sem fylgir því að stunda nám við þekktan skóla.

  • Afhverju ætti ég að læra flugvirkjun hjá Keili og AST?

   AST hefur kennt flugvirkjun í rúm 80 ár, er með glæsilega verklega aðstöðu og góð sambönd við evrópska EASA145 flugrekendur sem styrkir námið.

   Það er mikill munur að taka þátt í námi í verklegri aðstöðu AST samanborið við verklega aðstöðu hérlendis, og þó víðar væri leitað. Að auki er námið hjá AST beintengt við námsgreinar hjá University of Highlands and Islands í Skotlandi þannig geta nemendur sameinað námið sitt við nám á hærra skólastígi s.s. haldið áfram í tæknifræði og annað tengt nám.

 • Nánari upplýsingar

  • Mikilvægt að senda náms- og starfsferilskrá með umsókn
  • Námið fer fram á ensku
  • Kennt í lotum þar sem hvert fag er klárað áður en byrjað er á því næsta
  • Kennt er frá 09:00 til 16:30 virka daga
  • Áherslur á stærðfræði og eðlisfræði
  • Áhersla á stundvísi
  • Lágmark 75% skor til að standast áfanga
  • Námið er fimm annir
  • OJT – Starfsþjálfun á viðurkenndu EASA 145 verkstæði í 8 vikur
  • Verknám í 24 mánuði í samvinnu við viðurkennd EASA 145 viðhaldsfyrirtæki
  • Kennslugögn, bækur og verkefni er innifalið í námsgjaldi
  • Keilir mun bjóða nemendum upp á stuðning í flugensku með áherslu á flugtengd hugtök, orð og orðasambönd
  • Keilir mun bjóða nemendum upp á stuðning í stærðfræði og eðlisfræði í gegnum Viskubrunn Keilis
  • Strætó keyrir milli Ásbrúar og Höfuðborgarsvæðisins. Nánari upplýsingar hér.