Samstarf við Diamond Flying Club í Austurríki

Diamond DA-42 er ein fullkomnasta kennsluvél á landinu
Diamond DA-42 er ein fullkomnasta kennsluvél á landinu
Vegna aukins áhuga á atvinnuflugnámi í Flugakademíu Keilis, hefur skólinn gert ráðstafanir til að tryggja aðgengi nemenda á seinni stigum námsins að fjölhreyflaáritun (CPL/ME/IR) með samstarfi við Diamond Flying Club í Austurríki.
 
Samningurinn felur í sér að flugnemar Keilis fá allt að 20 tíma þjálfun á Diamond DA-42 flugvél sem er er staðsett við Wiener Neustadt East (LOAN) flugvöllinn suður af Vínarborg. Þess má geta að við völlinn eru einnig höfuðstöðvar Diamond flugvélaframleiðandans, en Keilir starfrækir samtals 14 kennsluvélar frá framleiðandanum. 
 
Fyrstu fjórir flugnemarnir fóru til Austurríkis á dögunum og láta vel af dvöl sinni. Með samningnum við DFC er leitast við að bæta enn frekar við þjónustu gagnvart atvinnuflugnemum Keilis, enda hefur hingað til einungis ein tveggja hreyfla kennsluvél verið til umráða fyrir flugnema skólans ásamt spánýjum DA-42 flughermi.
 
Diamond DA-42 er ein fullkomnasta kennsluvél á Íslandi og er eina kennsluvélin í þessum flokki sem hefur vottun til flugs í ísingarskilyrðum sem hentar frábærlega við íslenskar aðstæður. Flugmælitækin eru afar fullkomin og eru með fjölmörgum öryggisatriðum eins og stafrænni sjálfstýringu líkt og nútíma farþegaflugvélar.