Opið fyrir umsóknir í flugvirkjanám Keilis

Opnað hefur verið fyrir umsóknir í næsta námskeið í flugvirkjanámi AST og Keilis sem hefst í ágúst 2017.

Flugakademía Keilis býður upp á réttindanám flugvirkja. Námið fer fram í nýrri aðstöðu skólans á Ásbrú í Reykjanesbæ. Um er að ræða fimm anna bóklegt og verklegt iðnnám flugvirkja fyrir þá sem vilja öðlast alþjóðleg starfsréttindi og starfa í fjölbreyttu starfsumhverfi að viðhaldi flugvéla af öllum stærðum og gerðum.

Fjórar vikur námsins fara fram í samstarfsskóla Keilis í Skotlandi og fá nemendur þar með einstakt tækifæri til að sækja alþjóðlega reynslu og efla tengslanet sitt, ásamt því að læra verklags- og vinnureglur í einum virtasta flugvirkjaskóla Evrópu.

Miklir alþjóðlegir atvinnumöguleikar eru fyrir flugvirkja og góð tækifæri til frekari menntunar og starfsþróunar. Nemendum stendur til boða fjölbreyttur starfsvettvangur með mikla möguleika á sérhæfingu í framhaldi af náminu. 

Umsóknarfrestur er til 15. maí næstkomandi. Nánari upplýsingar á heimasíðu Flugakademíu Keilis.