Nýr verkefnastjóri fyrir innleiðingu flugnámsbrauta

Rúnar Árnason (forstöðumaður Flugakademíu Keilis), Andrej Vankov (verkefnastjóri flugnámsbrauta), Sn…
Rúnar Árnason (forstöðumaður Flugakademíu Keilis), Andrej Vankov (verkefnastjóri flugnámsbrauta), Snorri Páll Snorrason (skólastjóri Flugakademíu Keilis)
Keilir bauð fyrstur skóla á Íslandi upp á samtvinnað atvinnuflugmannsnám árið 2013 og í nóvember síðastliðnum bauð skólinn upp á flugnámsbraut (cadet nám) í samstarfi við Icelandair, þegar 25 nemendur hófu námið. Þetta var í fyrsta skipti sem slíkt nám hefur staðið nemendum til boða á Íslandi en þar aðstoðar Icelandair nemendur við fjármögnun námsins, auk þess sem samþykktir nemendur njóta forgangs til starfa hjá þeim að námi loknu.
 
Mikill áhugi nemenda á þessari námsleið ýtir undir aukið samstarf við fleiri flugfélög um sambærilegt nám á þeirra vegum, og hefur Andrej Vankov verið ráðinn sérstakur verkefnastjóri utan um innleiðingu cadet námsins. Andrej hefur áralanga reynslu af alþjóðlegu samstarfi og þróunarvinnu fyrir flugskóla og mun hann vinna að þróun sérsniðinna flugnámsbrauta fyrir innlend og erlend flugfélög.
 
Mikill skortur á flugmönnum á heimsvísu og ör vöxtur íslenskra flugfélaga hafa umbylt starfsumhverfi og möguleikum nýútskrifaðra atvinnuflugnema, en áður fyrr þurftu nemendur oft að bíða í lengri tíma eftir atvinnutilboðum. Á þriðja hundrað nemendur stunda flugtengt nám í Flugakademíu Keilis. Aukin ásókn hefur verið í námið á undanförnum misserum og er fullbókað í bæði samtvinnað og áfangaskipt atvinnuflugnám sem hefst í janúar.