Útskrift í Flugakademíu Keilis

Mynd: Oddgeir Karlsson
Mynd: Oddgeir Karlsson
Flugakademía Keilis útskrifaði 18 atvinnuflugnema við hátíðlega athöfn á Ásbrú föstudaginn 9. júní. Samtals 47 atvinnuflugmenn útskrifast úr skólanum það sem af er ársins. Mikil aukning hefur verið í flugtengt nám í Keili, en tveir atvinnuflugmannsbekkir hófust í maí auk þess sem mikill fjöldi nemenda mun hefja nám við skólann í ágúst. Þá útskrifuðust fimm flugvirkjar. Samtals hafa þá 24 flugvirkjar útskrifast á árinu og 46 samtals á tveimur árum. Rúnar Árnason, forstöðumaður Flugakademíunnar, flutti ávarp. Dúx var Sigurbergur Ingi Jóhannsson með 9,44 í meðaleinkunn. Kolbeinn fékk gjafabréf frá WOWair og bók frá Icelandair. Ræðu útskriftarnema flutti Pontus Willby.  
 
Mikil aukning nemenda í flugtengdu námi
 

Samtals hafa 175 einstaklingar lokið atvinnuflugmannsnámi frá upphafi og hefur verið aukin ásókn í atvinnuflugnám við Keili á undanförnum árum. Það sem af er ársins hafa þrír atvinnuflugmannsbekkir farið af stað við skólann og hefst fjórði bekkurinn í ágúst. Það er því ljóst að aldrei munu fleiri hafa stundað atvinnuflugmannsnám við Keili en á þessu ári. Þá hefur Flugakademían á undanförnum misserum bætt við flugvélakostinn og hefur nú yfir að ráða tíu fullkomnar kennsluvélar frá Diamond flugvélaframleiðandanum, þær fullkomnustu og nýstárlegustu á landinu. Að auki hefur skólinn yfir að ráða fullkominn hreyfanlegan flughermi frá Redbird og er von á öðrum flughermi í haust.

Myndir frá útskrift Keilis 9. júní 2017 (ljósmyndari: Oddgeir Karlsson)


Tengt efni