„Það má líkja náminu við hindrunarhlaup í myrkri og fljúgandi hálku“

Davíð Ingi Jóhannsson, búinn með hindrunarhlaupið sitt
Davíð Ingi Jóhannsson, búinn með hindrunarhlaupið sitt

Davíð Ingi Jóhannsson, nemandi í flugvirkjanámi, flutti ræðu útskriftarnema fyrir hönd Flugakademíu Keilis. Hann hlaut einnig viðurkenningu frá deildinni fyrir góðan árangur og eljusemi og fékk bókagjöf frá Isavia. Hann veitti Keili góðfúslegt leyfi til að birta ræðu útskriftarnema í Flugvirkjanáminu.

Kæru útskriftarnemar, kennarar, starfsfólk og aðrir gestir.

Þann 19. desember 2014 stóð ég frammi fyrir þeirri staðreynd, að sú grein sem ég hafði valið mér og eytt tæpum áratug í að gera að atvinnu, stóð ekki undir þeim væntingum sem til hennar voru gerðar. Þrjóska og óraunhæfar væntingar um batnandi ástand í greininni, höfðu fram að þessum degi ríghaldið mér frá öllum breytingum - en þennan örlagaríka dag losnaði takið.

Til allrar hamingju lá það ljóst fyrir að flugvirkjun var það sem átti að fylla skarðið sem gamla fagið hafði skilið eftir. Það var röð tilviljana sem undirbjó mig til að taka þessa stóru ákvörðun, og þegar að því kom - var það bara alls engin spurning.

Og í dag gæti ég ekki verið sáttari við þessa ákvörðun - hún er að skapa mér nýtt upphaf og mögulega aukin lífsgæði.

Þarna stóð ég, 35 ára gamall fjölskyldumaður á leið í flugvirkjanám í Keili - tólf árum eftir síðustu útskrift úr skóla. En aldrei efaðist ég um þessa ákvörðun. Tilfinningin var góð á þeirri sekúndu sem ég loks tók þessa ákvörðun, hún var ennþá betri daginn eftir og viku seinna var þetta bara alls engin spurning. Ég efaðist heldur ekki um burði mína til að takast á við þetta nýja, risastóra verkefni sem ég var um það bil að taka að mér. Ég var búinn að fá grænt ljós frá konunni - sem er algjört lykilatriði - og eftir það var ekki aftur snúið.

Þegar við skráðum okkur til leiks í flugvirkjanám Keilis og AST - óraði engu okkar fyrir þeirri vinnu sem framundan var. Námið gerði miklar kröfur til okkar nemenda - að sumra mati kannski fullmiklar - og strax á fyrsta degi var okkur gert grein fyrir ströngu regluverki skólans. Og þar sem ég stend hér í dag og lít yfir þetta verkefni sem við erum að klára, skil ég fullkomlega tilgang þessa stranga regluverks. Í grunninn er þetta nám, eins og margt annað, sía sem flokkar þá hæfustu úr stórum hópi þátttakenda. En megin tilgangur þess er að undirbúa okkur fyrir inngöngu í fagið með ítarlegri yfirferð þess sem koma skal og gera okkur grein fyrir því sem ætlast er af okkur sem flugvirkjar. Við erum að stíga inn í heim sem byggist á miklu öryggi og mikilli ábyrgð - og í honum er enginn afsláttur gefinn. Því má eiginlega segja að erfiðleikastig flugvirkjanáms Keilis og AST sé stillt svona hátt til þess eins að berja úr okkur kæruleysið.

En ef rétt er haldið á spöðunum, útskrifumst við með sterkan grunn sem er ætlaður til að byggja feril okkar á sem flugvirkjar - feril sem í raun hófst fyrsta skóladaginn okkar í Keili.

Því má segja að ástundun og árangur í skólanum dragi nokkuð skýra mynd af okkur sem verðandi starfsmönnum í faginu, því ef grunnurinn er ekki góður - er erfiðara að treysta því sem stendur á honum. Og í dag horfi ég á okkur útskriftarnema, sem eftir allar barsmíðarnar, hafa mótast úr mis-kærulausum einstaklingum í ábyrgðafulla flugvirkja. Því umfram þann haug af upplýsingum sem við höfum lært úr kennslubókunum okkar, er það glíman við hin ófyrirsjáanlegu skrímsli sem öll lokapróf AST eru, sem hefur kennt okkur meira en við þorum að viðurkenna.

Svo ég útskýri þetta með ófyrirsjáanlegu skrímslin aðeins - þá má líkja náminu okkar við hindrunarhlaup … sem hlaupið er í myrkri … og í fljúgandi hálku. Nemandi þarf að vera búinn að staðsetja hindranirnar fullkomlega til þess að komast í gegnum allt hlaupið og jafnvel þeir sem telja sig vera með brautina á hreinu, þurfa að hafa sig alla við til þess að komast í gegnum hlaupið, stórslysalaust. Margir misstíga sig í hindrununum á leiðinni, en með miklum aga, ósérhlífni og vinnusemi munu þeir sem virkilega ætla sér í mark … standa upp og klára hlaupið. En þetta kemur ekki að sjálfu sér - það þarf að hafa fyrir því að ná í mark.

Ég hef nokkrum sinnum í gegnum ferlið verið spurður að því hvort það sé ekki erfitt að setjast á skólabekk “á þessum aldri”. Og þar sem ég þarf nú að haga mér eftir aldri, byrja ég nú vanalega að draga djúpt andann og telja upp á 10 … og svara því svo, að svo sé nú ekki.

Því ef stuðningur og skilningur að heiman er til staðar - aftur … algjört lykilatriði - þá sé eiginlega bara auðveldara að afgreiða þetta verkefni “á þessum aldri”. Ástæðan er sú að “á þessum aldri” er maður oftast búinn að fá að upplifa ýmislegt, jafnvel fengið að klúðra einhverju, eignast börn, bera einhverskonar ábyrgð og … læra að vinna. Allt þetta tekur maður með sér í námið og ef rétt er haldið á spilunum, ætti þessi reynsla jafnvel að gefa manni ákveðið forskot á þá sem eiga þetta allt eftir. Og ef áhuginn er til staðar - skiptir það nákvæmlega engu hversu gamall eða gömul þú ert í upphafi náms - áhuginn kemur manni í mark.

Þrátt fyrir mikinn svita, yfirsnúning og jafnvel nokkur tár, þá er þetta umfram allt, búið að vera frábær tími. Við fórum í ógleymanlega námsferð til Perth í Skotlandi, þar sem við eyddum fjórum vikum í verklegri kennslu undir handleiðslu helstu höfðingja AST. Þar fengum við góða innsýn inn í heim flugvirkja og komum öll reynslunni ríkari heim. Og ég get fullyrt það að Skotland er í miklu uppáhaldi hjá flestum, ef ekki öllum í bekknum eftir þessa ferð. Sumir urðu meira að segja fyrir svo miklum fráhvörfum að þeir flugu út til Perth nokkru seinna til þess eins að taka próf!

Framtíð okkar verðandi flugvirkja er björt og það er í okkar höndum að nýta færið. Keilir hefur á þeim stutta tíma sem flugvirkjanámið hefur verið kennt, smíðað flotta umgjörð utan um námið og skilað af sér hópi vandaðra flugvirkja - sem hafa með dugnaði og fagmennsku, skapað gott orðspor hjá þeim flugfélögum sem þeir starfa hjá og með því rutt brautina fyrir okkur hin. Það er því undir okkur komið að viðhalda orðsporinu hvar svo sem við endum á hnettinum, það er okkur öllum í hag.

Fyrir hönd bekkjarins vil ég þakka kennurum og starfsfólki Keilis kærlega fyrir þennan frábæra tíma. Fyrir ákveðinn hluta bekkjarins, hefur Keilir - í tæp tvö og hálft ár, verið okkar annað heimili, þar sem við höfum eytt gífurlegum tíma, utan hefðbundins skólatíma, fyrir hvert einasta próf. Hlýtt viðmót, jákvæðni, gleði og hjálpsemi hvers einasta starfsmanns Keilis, hefur mótað hið einstaklega heimilislega andrúmsloft skólans - sem er okkur nemendum ákaflega mikilvægt. Vellíðan í skólanum hefur haft mikil og góð áhrif á árangur okkar í náminu og fyrir það erum við ykkur ævinlega þakklát.

Kæru útskriftarnemar - þetta er búið að vera magnaður ævintýri en nú er tekur alvaran við. Takk fyrir allt - Gangi ykkur vel vinir mínir, sé ykkur í bransanum! 


Tengt efni